Viðskipti innlent

Seldu skuldabréf fyrir 36 milljarða

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Róbert Wessman, stofnandi Alvotech
Róbert Wessman, stofnandi Alvotech Vísir/eyþór
Líftæknifyrirtækið Alvotech hefur tryggt sér fjármögnun upp á 300 milljónir dala, jafnvirði ríflega 36 milljarða króna, með sölu á skuldabréfum til fjárfesta. Fjármunirnir verða nýttir til þess að knýja áframhaldandi vöxt, endurfjármagna skuldir og þróa áfram líftæknilyf, að því er segir í fréttatilkynningu.

Eigendur skuldabréfanna munu jafnframt geta breytt bréfunum í hlutafé þegar Alvogen verður skráð á hlutabréfamarkað.

CLSA, dótturfélag CITIC Securities, stærsta fjárfestingarbanka Kína, var helsti söluráðgjafinn í skuldabréfaútboðinu og þá var stórbankinn Morgan Stanley aðalfjárfestirinn. Íslenska verðbréfafyrirtækið Arctica Finance veitti auk þess Alvotech ráðgjöf.

Sem kunnugt er keypti japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma 4,2 prósenta hlut í íslenska líftæknifélaginu í síðasta mánuði og nam kaupverðið um 50 milljónum dala. Áður höfðu félögin tilkynnt um samstarf sín á milli sem gerir Alvotech kleift að þróa og framleiða tæknilyf fyrir Japansmarkað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×