Viðskipti innlent

Slakinn kærkomið tækifæri til að byggja upp innviðina

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá breikkun Suðurlandsvegar við Sandskeið fyrir átta árum.
Frá breikkun Suðurlandsvegar við Sandskeið fyrir átta árum. Mynd/Vísir.
Sá slaki sem myndast hefur í hagkerfinu er kærkomið tækifæri til að byggja upp innviði, sem vanræktir hafa verið um árabil og jafnvel drabbast niður, að mati framsögumanna á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í gær. Enn vantar talsvert upp á að náð verði sama framkvæmdastigi og var fyrir hrun. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Þótt framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga aukist úr 80 milljörðum upp í 130 milljarða króna milli ára er umfang framkvæmda núna minna en var á árunum fyrir hrun. 

„Það eru minni umsvif núna í byggingariðnaði en var þá. Núna eru um 14 þúsund manns að vinna í byggingariðnaði en þegar mest lét árið 2008 voru þeir ríflega 16 þúsund. Svoleiðis að enn erum við ekki komin nálægt eða í sama fjölda og var,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. 

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Og Vegagerðin hefur ekki náð sama framkvæmdastigi. 

„Við erum ekki að ná sömu tölum og var 2008, enda var það mikið framkvæmdaár. En í kjölfarið á því, eins og við vitum, var mikið dregið saman. En við erum að ná að breyta hallatölunni þannig að hún sé jákvæð hvað varðar fjármagn til framkvæmda,“ segir Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar. 

Framsögumenn á Útboðsþinginu töldu raunar orðið brýnt að styrkja innviði, sem lengi hafa beðið. 

„Eins og átakið í malbiki er dæmi um. Svo erum við að byrja að hanna borgarlínu og gera marga þá hluti sem horfa mjög til framtíðar til þess að bæta samgöngurnar og innviðina í borginni,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á Útboðsþinginu.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Uppbygging er einnig í velferðarkerfinu. 

„Það eru til dæmis þrjár hugmyndasamkeppnir, eða framkvæmdasamkeppnir, vegna hjúkrunarheimila á árinu, því það er náttúrlega verið að gefa í  uppbyggingu þar,“ segir Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins. 

Og framkvæmdir eru ekki bara á Reykjavíkursvæðinu. 

„Þetta er um allt land. Það er líka heilmikið um standsetningu á eldri mannvirkjum, bæði auðvitað hér á höfuðborgarsvæðinu en víða um land. Þannig að þetta er bara mjög dreift,“ segir Guðrún.

Frá Reykjavegi í Biskupstungum. Uppbygging þessa fjölfarna malarvegar með bundnu slitlagi hefst á næstu vikum og á verkinu að vera að fullu lokið haustið 2020.Vísir/Magnús Hlynur
Tíminn er sagður góður fyrir hagkerfið. 

„Það er ekki bara góður tími heldur er það líka nauðsynlegt. Vegna þess, eins og við höfum bent á, þá hefur viðhaldi og uppbyggingu innviða verið heldur minna sinnt en skyldi á síðustu árum. Svoleiðis að núna er röðin komin að innviðunum enda eru innviðirnir lífæðar samfélagsins,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

 


Tengdar fréttir

Framkvæmdir fyrir 128 milljarða

Verklegar framkvæmdir tíu opinberra aðila sem kynntar voru á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í gær munu nema 128 milljörðum króna á árinu.

Fimmtíu milljarða viðbót sögð koma á góðum tíma

Um 130 milljörðum króna verður varið til framkvæmda opinberra aðila á þessu ári, sem er um 50 milljarða króna viðbót milli ára. Þessi gríðarlega innspýting er sögð koma á góðum tíma fyrir hagkerfið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×