Skoðun

Tilhneiging til framfara

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Fréttablaðið gerði helstu framförum og áföngum vísindanna á liðnu ári skil á dögunum. Í þessari upptalningu, sem var langt því frá tæmandi, kennir vitaskuld ýmissa grasa; allt frá fæðingu fyrsta barnsins úr ígræddu legi látinnar konu og tímabærri endurskilgreiningu kílógrammsins, til birtingarmynda loftslagsbreytinga og þess þegar vísindi, hugvit og hugrekki urðu til þess að tólf fótboltastrákum var bjargað úr helli í norðurhluta Taílands.

Okkur er tamt að hugsa um vísindin út frá byltingarkenndum uppgötvunum og sögulegum áföngum. Bæði virðast spretta fram á ólíklegustu tímum, stundum fyrir algjöra tilviljun eða lukkulega hugljómun. Þegar betur er að gáð er það alls ekki raunin. Undirstaða vísindalegra framfara er elja, þolinmæði og auðvitað samstarf við samtímafólk, og innblástur frá þeim sem ruddu brautina.

Uppgötvanir og framfarir ársins 2018 í vísindum eru merkilegur vitnisburður um þá grósku sem einkennir vísindin um þessar mundir á erlendum jafnt sem innlendum vettvangi. En af þessum framförum sprettur engin úr höfði eins manns eða konu, eða úr tóminu sjálfu. Þær eru afrakstur þess berggrunns sem vísindin eru reist á, og þeirra fjölmörgu mistaka, reikningsskekkna og misheppnuðu tilrauna sem fylgja öllu vísindastarfi.

Gott dæmi um þetta er átta daga ferðalag Apollo 11 til Tunglsins og heim. Ævintýri sem fagnar hálfrar aldar afmæli í sumar. Aðdragandi þessa stórfenglega augnabliks mannsandans var ekki markaður með risastórum skrefum, heldur mörgum litlum en þó þýðingarmiklum skrefum. Þýðing framfaranna fyrir samfélag mannanna er hins vegar ávallt meira virði en það sem varið var í sjálft átakið. Þar hafði Neil Armstrong sannarlega rétt fyrir sér. Vísindin borga sig alltaf, þó svo að ávinningurinn sé ekki augljós við fyrstu sýn.

Af hverju að rifja þetta upp? Viljinn til að framkvæma, betra sig og bæta, og óttinn við að mistakast er mörgum hugleikinn þegar árið er ungt og ný tækifæri virðast opnast.

Lexían sem skrykkjótt ferðalag vísindanna í gegnum aldirnar færir okkur er áminning um að vonbrigði og mistök eru eðlilegur — jafnvel nauðsynlegur — þáttur í framförum. Það eina sem þarf til í raun er tilhneiging til framfara; hlutur í kyrrstöðu á það nefnilega til að vera í kyrrstöðu, öfugt á við þann sem knúinn er áfram á nýja braut.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×