Sport

Græddi einn og hálfan milljarð á tveggja mínútna bardaga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Floyd "Money“ Mayweather og Tenshin Nasukawa í lok bardagans.
Floyd "Money“ Mayweather og Tenshin Nasukawa í lok bardagans. Vísir/Getty
Þetta voru góð áramót fyrir hnefaleikakappann Floyd Mayweather sem þykir manna duglegastur við að komast yfir stórar peningaupphæðir í íþróttaheiminum.

Síðasta væna útborgunin til Floyd Mayweather kom eftir bardaga við japanska bardagakappann Tenshin Nasukawa á Gamlársdag.

Tenshin Nasukawa er vissulega stjarna í Japan en er mjög langt frá því að vera alþjóðleg stjarna. Hann keppir vanalega í kickboxi en reyndi sig nú á móti einum af bestu boxurum allra tíma.

Floyd Mayweather er orðinn 41 árs gamall og hefur margoft sagt að hann sé hættur. Hann hefur þó stokkið á góð tilboð eins og þegar hann barðist við Conor McGregor árið 2017. Nú kom annað tilboð sem var of gott til að segja nei við.

Floyd Mayweather var aðeins 136 sekúndur að klára bardagann á móti Tenshin Nasukawa en hann fékk fyrir hann 13 milljónir dollara. Á þessum rúmu tveimur mínútum þá sló Mayweather Nasukawa þrisvar sinnum í gólfið.

Þrettán milljónir dollara eru einn og hálfur milljarður í íslenskum krónum og fékk Floyd Mayweather því ellefu milljónir á sekúndu í þessum bardaga.

Það eru samt ekki allir sáttir á samfélagmiðlum og margir halda því fram að það hafi verið búið að semja um niðurstöðu bardagans.

Floyd „Money“ Mayweather fór allavega sáttur heim með vasana fulla af peningum.









Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×