Erlent

Átök manns við könguló leiddu til útkalls lögreglu

Samúel Karl Ólason skrifar
Í samtali við BBC sagði Samuel Dinnison, talsmaður lögreglunnar, að lögregluþjónarnir sem fóru á vettvang hefðu ekki verið búist við að málið færi svona þegar tilkynningin barst.
Í samtali við BBC sagði Samuel Dinnison, talsmaður lögreglunnar, að lögregluþjónarnir sem fóru á vettvang hefðu ekki verið búist við að málið færi svona þegar tilkynningin barst. EPA/RICHARD WAINWRIGHT
Maður sem var á gangi í Perth í Ástralíu í dögunum heyrði grátur barns úr íbúð sem hann gekk fram hjá og mann ítrekað öskra: „Af hverju drepstu ekki?“. Maðurinn hafði áhyggjur af því að verið væri að fremja eitthvað ódæði þar inni og hringdi því á lögregluna.

Þegar lögregluþjóna bar að garði kom þó í ljós að lætin voru vegna átaka manns við könguló. Maðurinn bað lögregluþjónanna afsökunar og sagðist vera lafandi hræddur við köngulær. Hann hefði verið að reyna að drepa eina slíka sem hefði komist inn í íbúð hans.

Lögreglan í Wanneroo birti mynd af skráningu lögregluþjóna vegna atviksins á Twitter í nótt þar sem fram kom að engan hefði sakað í átökunum, fyrir utan köngulóna. Myndinni var þó eytt skömmu seinna. Í frétt Guardian segir það hafa verið gert þar sem ekki hefði átt að birtast mynd úr skrám lögreglunnar og þar að auki hefði skráin innihaldið stafsetningarvillur.

Í samtali við BBC sagði Samuel Dinnison, talsmaður lögreglunnar, að lögregluþjónarnir sem fóru á vettvang hefðu ekki verið búist við að málið færi svona þegar tilkynningin barst. Það hafi verið gott að maðurinn hafi eingöngu verið að reyna að drepa könguló.



Ekki liggur fyrir hvers kyns könguló um var að ræða. Um 2.900 tegundir má finna í Ástralíu en lang flestar þeirra eru meinlausar. Enginn mun hafa dáið þar vegna köngulóarbits frá 1981.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×