Innlent

Meintur njósnari sigldi um eyjar Breiðafjarðar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Paul Whelan með Klakkeyjar og Hrappsey í baksýn. Hann var handtekinn í Moskvu á föstudag, sakaður um njósnir.
Paul Whelan með Klakkeyjar og Hrappsey í baksýn. Hann var handtekinn í Moskvu á föstudag, sakaður um njósnir. Vísir/EPA
Íbúar í Stykkishólmi urðu heldur en ekki hissa þegar þeir sáu meintan bandarískan njósnara, sem nú er í haldi Rússa, sýndan í umhverfi Breiðafjarðar í heimspressunni í gærkvöldi, og það með tvær sögufrægar eyjar í bakgrunni. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.

Myndin hér að ofan birtist á CNN í gærkvöldi af Bandaríkjamanninum Paul Whelan, sem handtekinn var í Moskvu milli jóla og nýárs, en Rússar saka hann um njósnir. Ljósmyndin af Whelan sem þannig fór í dreifingu um alla heimspressuna virkaði þó eitthvað kunnugleg fyrir marga hér á landi, og sér í lagi fyrir íbúa Stykkishólms, sem töldu sig þekkja sama útsýnið og þeir hafa út um gluggana heima hjá sér. 

Horft út um glugga í Stykkishólmi. Klakkeyjar sjást fjær.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Hólmarar eru raunar ekkert í vafa um að hinn meinti bandaríski njósnari sé með Breiðafjörð í bakgrunni, enda eru Klakkeyjar eða Dímonarklakkar, hæstu eyjar Breiðafjarðar, auðþekkjanlegar á myndinni, með sínum tveimur klökkum, Stóraklakki og Litlaklakki. Einnig sést Hrappsey á myndinni. 

Eyjarnar eru rétt utan við mynni Hvammsfjarðar norðaustur af Stykkishólmi. Klakkeyjar eru í landnámssögunni frægar fyrir það að þar leyndi Eiríkur rauði skipi sínu áður en hann sigldi til Grænlands. Hrappsey er frægust fyrir prentsmiðjuna sem þar var stofnuð fyrir um 250 árum og gaf út fyrsta tímarit á Íslandi og eyjan er líka einstök í íslenskri jarðsögu með eitt sjaldgæfasta berg á jörðinni sem kallast anortósít og finnst helst á tunglinu.

Séð yfir Stykkishólmshöfn. Klakkeyjar og Hrappsey sjást úti á Breiðafirði undan Súgandisey. Fjær sjást fjöllin á Fellsströnd.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Mattías Arnar Þorgrímsson, skipstjóri hjá Sæferðum í Stykkishólmi, telur að myndin sé tekin um borð í háu skipi rétt norðan við Stykkishólm og telur mjög líklegt að hinn meinti bandaríski njósnari hafi verið í eyjasiglingu um borð í Særúnu, skipi Sæferða. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×