Erlent

Stolnar persónuupplýsingar þýskra stjórnmálamanna birtar á netinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Fulltrúar nærri því allra flokka á þýska þinginu urðu fyrir barðinu á þrjótunum. Aðeins AfD virðist hafa sloppið.
Fulltrúar nærri því allra flokka á þýska þinginu urðu fyrir barðinu á þrjótunum. Aðeins AfD virðist hafa sloppið. Vísir/EPA
Greiðslukortaupplýsingar og farsímanúmer er á meðal upplýsinga um hundruð þýskra stjórnmálamanna sem tölvuþrjótar hafa stolið og birt á netinu. Félagar í öllum stjórnmálaflokkum Þýskalands nema hægriöfgaflokksins Valkostur fyrir Þýskaland (AfD) urðu fyrir barðinu á þrjótunum.

Stolnu gögnin voru birt á Twitter. Í þeim er einnig að finna heimilisföng, persónuleg bréf og afrit af persónuskírteinum, að sögn The Guardian. Ekki liggur fyrir hverjir hakkararnir eru eða hvað þeim gengur til.

Tölvupóstfang Angelu Merkel kanslara og nokkur bréf hennar var lekið og talsmaður Vinstriflokksins (þ. Linke) hefur staðfest að þingmenn flokksins séu á meðal þeirra sem áttu persónuupplýsingarnar sem var stolið.

Breska ríkisútvarpið segir að fjölmiðlafólk og þekktir einstaklingar hafi einnig orðið fyrir árásinni. Það hefur eftir Katarinu Barsley, dómsmálaráðherra, að innbrotið sé „alvarleg árás“. Umfang hennar sé enn ekki ljós. Ekki er vitað til þess að brotist hafi verið inn í tölvukerfi þýskra stjórnvalda.

Rússneskum tölvuþjótum hefur verið kennt um fyrri innbrot og árásir, þar á meðal þegar gögnum var stolið úr tölvum þýska þingsins árið 2015 og ráðist var á netkerfi ríkisstjórnarinnar í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×