Viðskipti innlent

MAN leggur upp laupana

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Forsetafrúin Eliza Reid prýðir forsíðu síðasta tölublaðs MAN
Forsetafrúin Eliza Reid prýðir forsíðu síðasta tölublaðs MAN MAN
Fleiri tölublöð af tímaritinu MAN munu ekki líta dagsins ljós. Útgáfufélagið Mantra ehf, sem staðið hefur að útgáfu blaðsins frá árinu 2013, hefur tekið ákvörðun þess efnis. Ástæðan er sögð vera erfitt rekstrarumhverfi.

Í stöðuuppfærslu á Facebook, sem Björk Eiðsdóttir ritstjóri og Auður Húnfjörð framkvæmdastjóri undirrita, er lesendum þökkuð samfylgdin undanfarin ár. Þar má jafnframt sjá að síðasta tölublaðið sem kom út undir merkjum MAN, desembertölublaðið, skartaði forsetafrúnni Elizu Reid á forsíðunni.

Haft er eftir Auði í tilkynningu frá Möntru ehf. að það sé „auðvitað sárt að þurfa að hætta út­gáfu þess sem að okk­ar mati hef­ur verið eitt vandaðasta tíma­rit lands­ins en sök­um erfiðs rekstr­ar­um­hverf­is sjá­um við þá leið eina færa.“

Björk bætir við að þó svo að tímaritið hafi fengið góðar móttökur þá séu „aðstæður til slíkr­ar út­gáfu hér á landi, á þess­um litla markaði, því miður nán­ast ómögu­leg­ar og fara síst batn­andi.“ Þær Auður hafi reynt allt við að láta reksturinn ganga upp - „með því að vinna sjálf­ar allt það sem við gát­um og skera niður þar sem hægt er án þess að það bitni á gæðum. Við alla vega reynd­um allt sem við gát­um og göng­um að því leyti sátt­ar frá borði, þó svo að þetta sé ekki sársauka­laust,“ seg­ir Björk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×