Skoðun

Framlag úr vísindaheiminum

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar
Það er stundum kostulegt að fylgjast með umræðum á Íslandi um málefni sem spretta fram í dagsljósið.

Núna fengum við fréttir af því að kona nokkur, sem starfaði við rannsóknir á vegum Háskóla Íslands, hefði sakað fyrrverandi samverkamann sinn um áreitni af kynferðislegum toga. Þetta mun eiga að hafa átt sér stað fyrir nokkrum misserum. Atvik munu hafa verið athuguð af einhverri siðanefndinni sem komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri fótur fyrir ásökunum konunnar, m.a. eftir að hafa kannað vitnisburði samstarfsmanna.

Nú er eins og konan hafi talið sig fá tilefni til að taka málið upp á ný. Birtist hún þá opinberlega með ásakanir sínar. Hafa orðið sviptingar í kringum málið og mun konan hafa látið af þeim störfum sem hún gegndi, þegar á ósköpunum á að hafa staðið.

Þá birtist Kári Stefánsson á sviðinu. Hann kveðst þekkja til konunnar og segir að hver sá maður sem abbist upp á hana sé bjáni. Konan sé margverðlaunaður glímukappi og beri mönnum því ekki að abbast upp á hana. Hrópað er húrra fyrir Kára og hann er talinn hafa reynst konunni vel!! Líklega reyndist hann sakaða manninum verr en henni.

Fyrir liggur að Kári Stefánsson veit ekkert um sannleiksgildi ásakana konunnar. Maðurinn, sem fyrir ásökunum varð, hefur sent frá sér hófstillt og málefnalegt svar. Niðurstaðan er sú að hvorki Kári Stefánsson né nokkur annar utanaðkomandi maður veit neitt um þetta. Afskipti hans og staðhæfingar um málið eru fyrir neðan allt velsæmi. Svo mikið er víst að Kári eykur ekki hróður sinn sem vísindamaður með framgöngu sinni. Hann hefur að vísu fengið nokkur húrrahróp frá klappliði sem skeytir hvorki um skömm né heiður. Kannski hann sé að sækjast eftir því?

Þetta mál er einfalt í meðförum. Meðan ekki sannast sannleiksgildi svona ásakana verðum við að leggja til grundvallar hinn sakaði maður sé saklaus. Jafnvel þó að vísindamaðurinn Kári Stefánsson lýsi opinberlega yfir því að konan sé glímukappi og þess vegna beri að trúa henni!!

Jón Steinar Gunnlaugsson er lögmaður




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×