Skoðun

Vinnum saman gegn fíknivandanum

Vörður Leví Traustason skrifar
Ár er síðan greiningardeild embættis ríkislögreglustjóra benti á að aðgangur að sterkum fíkniefnum væri að aukast og myndi kosta fjölda manns lífið. Á sama tíma berast fréttir af því að 20% háskólanema hafi notað örvandi lyf sem hafi verið ávísað á einhvern annan. Aldrei hefur verið meiri þörf fyrir að efla þau meðferðar­úrræði sem fólki með fíknivanda býðst hér á landi.

Frá því að fyrstu skjólstæðingarnir komu í meðferð Samhjálpar í bílskúr á Sogaveginum fyrir 45 árum hafa tugþúsundir einstaklinga fengið hjálp og stuðning frá samtökunum til að takast á við fíknivanda sinn.

Í tillögum sem starfshópur heilbrigðisráðherra skilaði árið 2016 var meðal annars lagt til að fjölgað yrði afeitrunarplássum á sjúkrahúsum, tryggð fjölbreyttari meðferðarúrræði fyrir ólíka hópa og að settar yrðu lágmarkskröfur um gæði og innihald meðferðar, framvindu og árangur. Þá yrði tillit tekið til einstaklingsmiðaðrar meðferðar, kyns og aldurs, komið á samráðsvettvangi og rannsóknir og forvarnastarf eflt. Við viljum gera okkar til að þetta geti orðið að raunveruleika. Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á nýja byggingu á meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti sem rúmar fjölnotasal, aðstöðu fyrir lækni og hjúkrunarfræðinga og eldhús í fallegri náttúru Mosfellsdalsins og verður það vígt 31. janúar nk. Húsið tengir saman eldri byggingar sem hýsa herbergi heimilismanna. Geta 30 einstaklingar, 10 konur og 20 karlar, verið í meðferð hverju sinni að lokinni afeitrun á sjúkrahúsi.

Draumurinn er að fjölga meðferðarrýmum upp í 40 og efla og bæta þjónustuna með aukinni fjölbreytni í meðferðarúrræðum þ.m.t. þjónustu félagsráðgjafa og sálfræðinga í góðu samstarfi við aðra sem sinna einstaklingum sem glíma við fíkn, áföll og geðræna sjúkdóma. Samhjálp rekur einnig eftirmeðferðarheimili þar sem um 55 einstaklingar geta búið í um tvö ár og verið í áframhaldandi meðferð. Þá er Kaffistofa Samhjálpar rekin í Borgartúni 1 þar sem opið er alla daga ársins og um 67.000 máltíðir eru gefnar á ári. Tökum höndum saman gegn þeirri miklu vá sem fíkn er í samfélagi okkar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×