Sport

„Loksins“ vann Sara titilinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sara Björk er Íþróttamaður ársins 2018
Sara Björk er Íþróttamaður ársins 2018 mynd/skjáskot
Nýkrýndur Íþróttamaður ársins Sara Björk Gunnarsdóttir sagðist loksins hafa unnið stóra titilinn eftir að hafa verið á meðal tíu efstu oftar en nokkur íþróttakona.

„Ég er bara smá „emotional“,“ sagði Sara Björk eftir að hafa tekið við verðlaununum á árlegu hófi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Samtaka íþróttafréttamanna í Hörpu í kvöld.

„Þetta er ótrúleg tilfinning og ótrúlega mikill heiður.“

„Ég hef mætt á hverju ári og þegar maður er á meðal topp 10 þá á maður alltaf von.“

Sara Björk átti mjög gott ár með félagsliði sínu en það voru meiri vonbrigði í kringum landsliðið sem missti af sæti á HM.

„Árið hefur verið upp og niður, með landsliðinu aðeins meira niður. En auðvitað hefur maður gaman af þessu, maður er fyrst og fremst í þessu til að hafa gaman.“

Sara vann tvöfalt í Þýskalandi með Wolfsburg en þurfti að sætta sig við tap í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í vor. Markmiðin fyrir þetta tímabil eru skýr.

„Ég er ekki í þessu til þess að vera í öðru sæti,“ sagði Íþróttamaður ársins 2018 Sara Björk Gunnarsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×