Skoðun

Tæknibyltingu í grunnskóla

Katrín Atladóttir skrifar
Börn eru flest neytendur tækni en ekki skaparar hennar. Það má segja að þegar kemur að tækni kunni börn að lesa en ekki skrifa. Með því að kenna forritun og tölvunarfræði á grunnskólastigi mætti snúa þessu sambandi við og gera börn betur í stakk búin til að takast á við framtíðina.

Forritunarmál eru einu tungumálin sem tölvur skilja. Til að geta talað við tölvur þarf að læra forritun og forritunarkunnátta því hluti af læsi 21. aldar. Grunnskólinn hefur lykilhlutverki að gegna þegar kemur að því að vekja áhuga hjá börnum og skapa grunn sem nýtist þeim til framtíðar. Að sameina leik og lærdóm með efni sem vekur áhuga og höfðar til barna. Við þurfum að þroska hæfileika barnanna til að greina vandamál, brjóta þau niður í smærri verkefni og leysa þau, m.a. með tækni. Að nota tækni sem verkfæri. Tæknilæsi og færni til að skilja hvernig tölvur virka verður sífellt mikilvægari.

Ekki munu öll börn verða forritarar eða tölvunarfræðingar, ekki frekar en stærðfræðingar. Samt kennum við stærðfræði í grunnskólum til að búa til grunn sem þau búa að í verkefnum framtíðarinnar. Til þess að vekja áhuga fleiri á þessu sviði. Aukinn skilningur á tækni og beitingu hennar eflir kerfisbundna og gagnrýna hugsun á mörgum sviðum. Þannig opnast dyr að nýjum og eftirsóknarverðum störfum í framtíðinni.

Tölvur og vélmenni eru orðin hluti af daglegu lífi og munu verða enn veigameiri þáttur. Það er mikilvægt að kunna að nota þessi tæki en líka að hafa grunnhugmynd um hvernig hún virkar.

Ég mun því á næsta fundi borgarstjórnar leggja fram tillögu um innleiðingu forritunarkennslu í grunnskólum. Við viljum að börnin okkar verði leiðandi í fjórðu iðnbyltingunni. Það er spennandi og framsækið verkefni.

Höfundur er borgarfulltrúi og hugbúnaðarverkfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×