Innlent

Vaxtakostnaður 700 milljónir

Sveinn Arnarsson skrifar
Göngin opna 12. janúar næstkomandi.
Göngin opna 12. janúar næstkomandi. Fréttablaðið/Auðunn
Vaxtakostnaður vegna Vaðlaheiðarganga verður um 700 milljónir á næstu árum ef marka má orð formanns stjórnar Vaðlaheiðarganga hf. um framvindu verkefnisins. Opna á göngin formlega þann 12. janúar næstkomandi en forsvarsmenn ganganna vonast eftir að geta hleypt umferð um göngin fyrir jól.

Stjórn Vaðlaheiðarganga kynnti veggjaldafyrirkomulag ganganna á fundi í gær. Stakt gjald fyrir fólksbifreið mun verða 1.500 krónur en ódýrast verður að kaupa hundrað ferðir á 700 krónur ferðina. Gjald fyrir stórar bifreiðar, yfir 3.500 kíló, verður 6.000 krónur.

Hilmar Gunnlaugsson, formaður stjórnar Vaðlaheiðarganga.
Ekki verður mönnuð gjald­stöð í göngunum heldur verður ný tækni notuð þar sem hægt er að kaupa staka ferð í gegnum snjallforrit. Einnig er hægt að skrá sig í áskrift og kaupa ferðir fyrirfram á vefsíðu fyrirtækisins, veggjald.is. Hver einstaklingur getur skráð sig fyrir þremur bifreiðum. Raftákn og Efla hafa hannað kerfi sem gerir kaup á fargjöldum auðveldari fyrir einstaklinga.

Hilmar Gunnlaugsson, formaður stjórnar Vaðlaheiðarganga, segir að endanlegur kostnaður við göngin muni liggja í kringum 17 milljarða króna og samkvæmt útreikningum fyrirtækisins ætti að vera hægt að greiða upp lánið á um 28 árum. Einnig sagði hann að vextir af langtímalánum verði ekki hærri en 4,2 prósent.

Frá kynningarfundinum í gær.
„Þegar verður komin reynsla á rekstur ganganna munum við fara í langtímafjármögnun og þá fyrst vitum við hvaða vextir bjóðast okkur. Væntingar okkar eru hins vegar að þeir verði ekki meiri en 4,2 prósent,“ segir Hilmar. „Við byggjum okkar áætlun á spá Vegagerðarinnar um umferð og svo gerum við ráð fyrir sömu aukningu og Vegagerðin árlega.“

Ef vextir af 17 milljörðum verða um fjögur prósent er líklegt að vaxtakostnaðurinn hlaupi á hund­ruðum milljóna króna.

Mikill vatnselgur í göngunum, með bæði heitu og köldu vatni, gerði gangamönnum erfitt um vik. Vatnselgurinn kom ekki fram í tilraunaborunum á sínum tíma þrátt fyrir að bergið í Vaðlaheiðargöngum hafi verið meira rannsakað en í Hvalfjarðargöngunum á sínum tíma.

Umferð um svæðið hefur aukist um 60 prósent frá því ákveðið var að hefja framkvæmdir við göngin. Sú aukning, sem er að miklu leyti vegna aukinna umsvifa í ferðaþjónustu, kemur sér afar vel fyrir framkvæmdaraðila en án hennar væri ljóst að tekjurnar myndu aldrei standa undir kostnaðinum.


Tengdar fréttir

Óskhyggja ríki ekki við framkvæmdir

Formaður Viðreisnar segir ljóst að breyta þurfi verklagsreglum þegar kemur að opinberum framkvæmdum og áætlanagerð. Allir flokkar þurfi að koma sér saman um það.

Göngin borgi sig upp á 28 árum

Vaðlaheiðargöng verða formlega opnuð þann 12. janúar næstkomandi, rúmlega tveimur árum á eftir áætlun. Vonir standa til að hægt verði að hleypa umferð í gegn fyrir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×