Fótbolti

Arnór var fjögurra ára gamall þegar Íslendingur náði þessu síðast í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Sigurðsson þakkar Gareth Bale fyrir leikinn í gær.
Arnór Sigurðsson þakkar Gareth Bale fyrir leikinn í gær. Vísir/Getty
Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson varð í gær aðeins annar Íslendingurinn í sögu Meistaradeildarinnar sem bæði skorar mark og gefur stoðsendingu í sama leik í Meistaradeildinni.

Þessu hafði bara einn maður náð einu sinni áður. Eiður Smári Guðjohnsen skoraði mark og gaf stoðsendingu í 4-0 sigri Chelsea á Lazio á Ólympíuleikvanginum í Róm 4. nóvember 2003. Síðan eru liðin fimmtán ár og rúmur mánuður.

Arnór er fæddur 15. maí 1999 og var því aðeins fjögurra, fimm mánaða og tuttugu daga gamall þegar Eiður Smári fór á kostum á móti Lazio en knattspyrnustjóri Chelsea á þessum degi var enginn annar en Claudio Ranieri.

Það fylgir sögunni að í þessum Lazio leik fyrir fimmtán árum þá kom Eiður Smári inná sem varamaður fyrir Argentínumanninn Hernán Crespo á 67. mínútu. Eiður kom Chelsea í 2-0 á 70. mínútu og lagði síðan upp fjórða markið fyrir Frank Lampard á 81. mínútu.





Þessi leikur á móti Lazio var aðeins annar leikur Eiðs Smára í Meistaradeildinni. Hann átti eftir að spila 43 til viðbótar og bæta við sex mörkum og sjö stoðsendingum.  

Arnór Sigurðsson var að spila sinn sjötta Meistaradeildarleik á Santiago Bernabéu. Hann lagði líka upp mark í leiknum á móti Roma og hefur því komið að þremur mörkum í síðustu þremur leikjum.

Meistaradeildarleikirnir verða ekki fleiri hjá Arnóri á þessu tímabili þar sem CSKA Moskva er úr leik en Skagamaðurinn fær vonandi miklu fleiri Meistaradeildarleiki með liðum sínum í framtíðinni.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×