Innlent

Skólabörn gáfu björgunarsveit eina og hálfa milljón króna

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Frá afhendingu peningagjafarinnar í morgun, fulltrúar Björgunarfélags Árborgar og nemenda.
Frá afhendingu peningagjafarinnar í morgun, fulltrúar Björgunarfélags Árborgar og nemenda. Magnús Hlynur
Það var hátíðleg stund í Sunnulækjarskóla á Selfossi í morgun þegar nemendur skólans mættu í Fjallasal og sungu saman jólalög í tröppum salarins. Hápunkturinn var þó þegar nemendur færðu Björgunarfélagi Árborgar peningagjöf upp á eina og hálfa milljón króna.

Um er að ræða peninga sem krakkarnir söfnuðu á góðgerðadegi skólans sem var 7. desember. Dagana áður höfðu þau búið til fjölbreyttar vörur sem þau seldu á góðgerðardeginum, auk þess að vera með kaffihús. Nemendur skólans ákváðu sjálfir að þau vildu styrkja Björgunarfélag Árborgar. Í skólanum eru tæplega 700 nemendur.

„Við erum afskaplega ánægð með þessa gjöf og gaman að nemendurnir skyldu velja það að styrkja okkur og okkar starf. Við ætlum að nota peninginn til að kaupa nýtt Jet Ski sem á örugglega eftir að reynast okkur vel“, segir Björgvin Óli Ingvarsson, stjórnarmaður hjá Björgunarfélagi Árborgar og bætir við að þetta sé með flottari jólagjöfum sem félagið hefur fengið.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×