Innlent

Ferðamanni bjargað úr briminu í Reynisfjöru

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Reynisfjöru í dag.
Frá Reynisfjöru í dag.
Erlendum ferðamanni var bjargað í Reynisfjöru eftir að hafa lent í ógöngum í flæðarmálinu á fjórða tímanum í dag. Samkvæmt sjónarvottum náðu öldur alveg upp að klettunum sem eru í Reynisfjöru en maðurinn hafði að sögn viðstaddra gengið niður að flæðarmáli þrátt fyrir viðvaranir viðstaddra.

Það leið ekki á löngu þar til alda hafði fellt hann um koll og fór svo að íslenskur leiðsögumaður hljóp út í brimið til að koma honum til bjargar. Sá átti í mestu erfiðleikum við að bjarga manninum en fékk svo hjálp frá öðrum. Var maðurinn sem var hætt kominn örmagna úr þreytu eftir baráttuna í briminu að sögn viðstaddra. 

Ferðamaður tók meðfylgjandi myndband sem gaf góðfúslegt leyfi fyrir birtingu þess á Vísi.



Klippa: Björgun í Reynisfjöru
Svörtu sandarnir í Reynisfjöru og nágrenni eru einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Ítrekað hafa borist fréttir af því að ferðamenn hafi verið hætt komnir í fjörunni. Í janúar árið 2017 var greint frá því að barn á leikskólaaldri hefði verið hársbreidd frá því að hafna í sjónum í Reynisfjöru og þá voru þýsk hjón hætt komin á sömu slóðum árið 2008 þegar alda tók þau með sér.

Nokkur banaslys hafa einnig orðið í Reynisfjöru og nærliggjandi fjörum síðustu ár. Bandarísk kona á áttræðisaldri beið bana þegar brimalda hrifsaði hana út á dýpið árið 2007. Árið 2016 lést kínverskur ferðamaður um fertugt þegar stór alda sló honum í bergið. Síðast varð banaslys tengt briminu í janúar í fyrra þegar þýsk kona fór í sjóinn við Kirkjufjöru.

Ferðaþjónustuaðilar hafa kallað eftir því að gerðar verði frekari öryggisráðstafanir í Reynisfjöru og nærliggjandi fjörum vegna tíðra slysa. Lögregla hafði eftirlit með svæðinu um tíma eftir banaslysið í Reynisfjöru árið 2016 og þá var komið upp viðvörunarskiltum vegna slysahættu við sjóinn sama ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×