Skoðun

Pírataruglið

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Alþingispíratinn um kostnað við akstur þingmanna: „Það verður að kalla til lögreglu til að rannsaka þetta mál, úr því að forsætisnefnd neitar að brenna þennan þingmann á báli. Við erum sko að ræða um meðferð opinbers fjár.“ Alvarlegt augnaráð og þungi fylgir.

Borgarstjórnarpíratinn um Braggamálið: „Það er mikilvægt að við lærum af þessu og förum yfir alla verkferla, þetta eru nefnilega alveg gríðarlega flóknir ferlar, þú skilur.“ Flóttalegt augnaráð og vandræðalegt bros fylgir.

Það er ótrúlegt að fylgjast með Pírataflokknum þessa dagana. Fyrst kemur í ljós að flokkurinn er gegnumsýktur af eineltismenningu og frásagnir fólks sem þar hefur starfað og orðið fyrir eineltinu eru mjög sorglegar. Allt verður það verra sökum þess að Píratar virðast líta á sig sem betri en annað fólk. Þeir sem hafa lesið Dýragarð Orwells vita hvernig fer fyrir slíku fólki.

En það er ekki síður áhugavert að sjá hversu mjög miklu munar á Pírötum á Alþingi og Pírötum í borgarstjórn eins og sést að ofan. Þingpíratarnir sem eru í minnihluta á Alþingi hafa slegið Norðurlandamet í spurningum og jafnvel þegar spurningar þeirra og ásakanir um óeðlilega meðferð opinberra fjármuna hafa verið hraktar, þá halda þeir áfram rétt eins og svör skipti ekki máli, einungis spurningarnar.

En borgarstjórnarpíratarnir eru í meirihluta í Reykjavíkurborg. Þeir lýstu því yfir á dögunum með opinberri samþykkt að friður þyrfti að fást „fyrir ágangi stjórnmálamanna sem í fullkominni málefnafátækt einbeita sér að málum sem eingöngu virðast til þess fallin að gera öll útgjöld borgarinnar tortryggileg“.

Tær snilld!

Mann hreinlega svimar af ruglinu.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×