Skoðun

Áttu erindi í hraðbankann?

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Víða er opið í fordyri bankanna svo að fólk geti hanterað hraðbankann þar í næði. Þangað fer ég stundum að taka út túkalla. En nú þegar ólífuuppskerutíminn er genginn í garð, hér í Alcalá í suðurhéruðum Spánar, koma þau líka að annars konar notum. Nú halda þar til farandverkamenn frá Afríku. Þeir fletja út pappakassa á gólfinu og sofa þar ofaná með teppahrúgu yfir sér. Árla dags fjölmenna þeir svo við rútustöðina en þangað koma jarðeigendur á jeppunum sínum og kippa þeim uppí.

Enn er næturfrostið ekki farið að næða um en það er á næsta leiti. Þá verður nóttin vitaskuld nöpur í hraðbankanum og ófýsilegt að halda útá frosinn akurinn.

Allt eru þetta ungir menn og margir hverjir óskiljanlega brosmildir. Einn þeirra sagði mér frá Ódysseifsför sinni þegar hann fór frá Senegal með fríðum hópi á slöngubát til Kanaríeyja. Var hann sjö daga á leiðinni og allar vistir og eldsneyti nánast uppurið þegar náðist í land. Enginn lést á leiðinni sem má teljast mikið lán sem margir hafa farið á mis við á leið sinni yfir Miðjarðarhafið síðustu mánuðina einsog allir vita.

Hann segist vera búinn að greiða fyrir farið svo ég veit að það tók sinn tíma en ekki veit ég hvernig þær greiðslur fóru fram og hvaða glæpamaður fékk þær á endanum. Ekki veit ég heldur hvað ræður því að hér eru farandverkamennirnir frá löndum sunnan Sahara en í næsta þorpi koma þeir nánast allir frá Rúmeníu. Ekki veit ég heldur hvert þessir „bankabúar“ fara þegar uppskeru lýkur hér. En það versta af öllu er að í raun skil ég ekki hvað veldur því að erindi okkar í hraðbankann eru svona ólík.




Skoðun

Sjá meira


×