Skoðun

Heiður himinn fram undan

Davíð Þorláksson skrifar
Þau eru ekki mörg lengur sem neita að loftslag sé að hlýna af mannavöldum og að öll ríki heims verði að taka höndum saman til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Á sama tíma og við öll þurfum að gera okkur grein fyrir alvarleika stöðunnar er margt jákvætt að gerast sem vert er að vekja athygli á. Auk þess sem ríkisstjórnin hefur samþykkt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til 2030, og sett fjármagn í hana, hefur atvinnulífið ekki látið sitt eftir liggja.

Lítum til þriggja stærstu atvinnugreinanna. Sjávarútvegurinn hefur dregið úr útblæstri fiskiskipa á gróðurhúsalofttegundum um 30% frá 1990. Stóriðjan er sífellt að þróa nýja tækni til að draga úr losun. Þannig hefur losun á hvert framleitt tonn hjá álverinu í Straumsvík t.d. minnkað um 76% frá 1990. Í ferðaþjónustu hefur Icelandair hafið innleiðingu á Boeing 737 vélum sem brenna 37% minna eldsneyti en Boeing 757 vélarnar sem Icelandair hefur að meginstefnu notað hingað til. WOW air notast eingöngu við nýlegar og sparneytnar vélar. En mikilvægasta framlag íslensks atvinnulífs til loftslagsmála er líklega vinna Arctic Green Energy við innleiðingu á hitaveitu til húshitunar í Kína. Allt að 50% loftmengunar í heiminum má rekja til brennslu kola og olíu til hitunar eða kælingar á húsum.

Fleira má nefna. Bílaframleiðendur eru að þróa bíla sem eru sparneytnari og nota nýja orkugjafa. Í samstarfi við bændur og aðra landeigendur mætti endurheimta votlendi og fjórfalda skógrækt. Hnattrænar áskoranir eins og þessar verða bara leystar með áframhaldandi góðu samstarfi atvinnulífs og hins opinbera.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×