Skoðun

Hlutabréfamarkaður sem drifkraftur atvinnulífs 

Páll Harðarson skrifar
Þar sem best hefur tekist til erlendis hefur hlutabréfamarkaður stutt myndarlega við vöxt efnahagslífsins. Lítil fyrirtæki hafa stækkað og áhugaverð og vel launuð störf orðið til fyrir tilstuðlan fjármögnunar á markaði. Eftir því sem hlutabréfamarkaðurinn braggast eygjum við að hann geti orðið jafn mikilvægur drifkraftur í atvinnulífinu hér eins og í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þróunin undanfarið lofar góðu en fyrirtæki hafa aflað meira en 30 milljarða króna til vaxtar á hlutabréfamarkaði síðastliðið ár.

Nýleg úttekt hins virta vísitölufyrirtækis FTSE Russell á íslenska markaðnum sýnir að við erum í seilingarfjarlægð frá þessu markmiði og gætum, ef markaðsaðilar og stjórnvöld taka höndum saman, náð í flokk þeirra landa sem uppfylla ströngustu gæðakröfur FTSE Russ­ell og annarra svipaðra fyrirtækja. Íslenskur hlutabréfamarkaður stenst 15 af 21 skilyrði FTSE Russell að fullu, fimm að hluta, en einungis eitt ekki (skilyrði um skipulegan afleiðumarkað).

Að komast í flokk fremstu hlutabréfamarkaða heims væri ómetanlegt fyrir íslenskt atvinnulíf, einkum vegna greiðari aðgangs fyrirtækja, lítilla og stórra, að fjármagni til vaxtar. Til þess að þetta takist þarf fyrst og fremst að fjölga skráðum fyrirtækjum og stækka markaðinn. Til að komast í efstu flokkun hjá alþjóðlegum fyrirtækjum á borð við FTSE Russell þyrftum við líkast til að tvöfalda til þrefalda stærð markaðarins á mælikvarða markaðsvirðis.

Skráning Landsbankans og Íslandsbanka hefði mikið að segja í þessu tilliti. Miðað við hóflegar forsendur um vöxt markaðarins að öðru leyti á komandi árum gæti skráning bankanna þýtt að settu marki yrði náð innan 5-10 ára. Hún er því ekki aðeins mikilvæg fyrir bankana og ríkissjóð heldur alla umgjörð fjármögnunar íslenskra fyrirtækja.

Höfundur er forstjóri Kauphallarinnar




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×