Viðskipti innlent

Segir að höfuðtilgangur Ratcliffe sé verndun villta laxastofnsins

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Framkvæmdastjóri veiðiklúbbsins Strengs í Vopnafirði segir að höfuðtilgangur Jim Ratcliffe, með kaupum á jörðum og veiðiréttindum í Vopnafirði, sé verndun villta laxastofnsins. Með kaupum á Streng nær Ratcliffe yfirráðum yfir tveimur eftirsóttustu laxveiðiám landsins, Selá og Hofsá, í Vopnafirði.

Jim Ratcliffe, ríkasti maður Bretlandseyja, hefur nú eignast 90 prósent hlutafjár í veiðiklúbbnum Streng. Frá þessu var greint í Fréttablaðinu í dag.

Strengur hefur árnar Selá og Hofsá á leigu en um er að ræða tvær eftirsóttustu laxveiðiár landsins. Ratcliffe hefur keypt fjölda jarða á Norðausturlandi á síðustu árum í þeim tilgangi að komast yfir laxveiðiréttindi.

Laxveiði á undir högg að sækja

„Laxveiði er grein sem á undir högg að sækja. Laxinn er á undanhaldi í bæði Noregi, Skotlandi og hefur horfið úr sumum Evrópulöndum og jafnvel Kanada. Hann þekkir það frá Englandi hvernig ensku og skosku árnar hafa liðið fyrir alls kyns búskap, laxeldi og annað og hann leggur mikla áherslu á að vernda þennan íslenska stofn,“ segir Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri veiðiklúbbsins Strengs. 

Gísli segir að Ratcliffe hafi meðal annars áhyggjur af áhrifum laxeldis á villta laxastofninn í ljósi slæmrar reynslu af áhrifum laxeldis á villta stofninn í Noregi og í Skotlandi.

„Það hafa allir stangveiðimenn áhyggjur af laxeldi. Sumir kaupa golfvelli og aðrir kaupa eyjur í Karabíska hafinu. Ratcliffe hefur ódrepandi áhuga á þessu. Hann hefur jafnframt fjárfest í búgörðum í Afríku og hefur þar verndað svæði fyrir ágangi,“ segir Gísli aðspurður um langtímaáform Ratcliffe vegna jarðakaupa og kaupa á veiðiréttindum á Norðuausturlandi.

Áform Ratcliffe varðandi verndun laxveiði á Norðausturlandi eru útskýrð í stuttu heimildarmyndinni Iceland Six Rivers Project. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×