Erlent

Trúboði drepinn af einangruðum eyjaskeggjum í Indlandshafi

Atli Ísleifsson skrifar
Áætlað er að eyjaskeggjar telji milli fimmtíu og 150.
Áætlað er að eyjaskeggjar telji milli fimmtíu og 150. Mynd/Indverska strandgæslan
Bandarískur ferðamaður er sagður hafa látið lífið eftir að hafa orðið fyrir árás meðlima einangraðs ættbálks á eyju í Indlandshafi.

Sjómenn eiga að hafa flutt ferðamanninn til hinnar afskekktu eyju Norður-Sentinel, austur af Indlandi, þar sem eyjaskeggjar eru sagðir hafa skotið hann með örvum og skilið lík hans eftir á ströndinni.

BBC  hefur eftir indverskum fjölmiðlum að ferðamaðurinn hafi verið kristinn trúboði, John Allen Chau að nafni.

Íbúar á eyjunni hafa lifað þar einangraðir og hafa indversk stjórnvöld lagt bann við það að eiga við þá samskipti. Áætlað er að eyjaskeggjar telji milli fimmtíu og 150.

Lögregla segja sjö sjómenn hafa verið handtekna fyrir að hafa flutt trúboðann til eyjarinnar með ólöglegum hætti. Er talið að Chau hafi áður sótt eyjuna heim, fjórum eða fimm sinnum, með aðstoð sjómannanna.

Þriggja ára fangelsi

Stjórnvöld á Indlandi gerðu það ólöglegt árið 2017 að taka myndir eða myndbönd af eyjaskeggjum. Eiga þeir sem gera slíkt yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsi.

Fréttaritari BBC segir að Sentinel-ættbálkurinn hafi lifað einangraður frá umheiminum í um 60 þúsund ár. Árið 2006 var greint frá því að tveir sjómenn hafi verið drepnir af eyjaskeggjum eftir þeir stigu fæti á eyjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×