Lífið

Hluti af Hlöðufelli í Listaháskólanum

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Hópurinn flutti hluta náttúrunnar inn í rýmið í Listaháskólanum.
Hópurinn flutti hluta náttúrunnar inn í rýmið í Listaháskólanum. Fréttablaðið/Eyþór
Sýningin Fjallað um/Mountained about verður opnuð í húsnæði Listaháskóla Íslands við Þverholt, þriðju hæð, klukkan 17 í dag. Þar sýna 3. árs nemar í vöruhönnun niðurstöður námskeiðs sem átti sér upphafspunkt í fjallinu Hlöðufelli. Meðal þess sem hópurinn þurfti að skila af sér og mun sýna í dag eru myndbandsverk, bókverk og vara. Sýninguna unnu þau eftir rannsóknarferðir á fjallið og vangaveltur um náttúru og ónáttúru.

„Við fórum í nokkrar ferðir þangað til að kanna svæðið. Við vorum svolítið hrædd við þetta til að byrja með, tókum mark fyrir hvern einasta stein sem við tókum upp og áttum almennt erfitt með að raska náttúrunni á nokkurn hátt vegna samviskubits. Þetta leiddi til þess að við fórum að velta fyrir okkur spurningum eins og: Er hægt að eiga fjall? Er hægt að kaupa fjall? Getum við keypt þetta fjall?“ segir Signý Jónsdóttir en hún vann sýninguna með Elínu Sigríði Harðardóttur, Ingu Kristínu Guðlaugsdóttur, Írisi Indriðadóttur og Kjartani Óla Guðmundssyni.

Niðurstaða hópsins eftir fyrstu ferðina var sú að svæðið í kringum Hlöðufell og fjallið sjálft væri þjóðlenda svo að þau tóku allt svæðið og reiknuðu út hversu stóru landsvæði af heildinni þessi fimm manna hópur gæti skipt á milli sín.

„Við fórum í aðra ferð og mörkuðum þetta landsvæði. Við vorum inni á okkar svæði í einn og hálfan klukkutíma, ekki með neinar reglur eða neitt og sáum hvað gerðist. Þetta tókum við upp sem gjörning. Og út frá þessum efniviði höfum við verið að vinna þessa sýningu.“

Með sýningunni vill hópurinn reyna að brúa bilið á milli náttúrunnar og hluta sem við teljum ónáttúrulega. Signý tekur sem dæmi hlutinn sem við göngum flest með í vasanum – snjallsímann.

„Við vorum öll með síma á okkur en einn farsími er unninn úr tæplega 300 kílóum af náttúrulegum hráefnum. Sílíkonstykki er alveg jafn mikil náttúra og að fara út og snerta mold. Við erum búin að velta fyrir okkur þessu jafnvægi á snertingu okkar mannanna við náttúruna – við getum ekki sleppt því að vera í snertingu við náttúruna en við megum heldur ekki snerta hana of mikið. Við erum með þessari sýningu að reyna að sýna fram á það og leyfa fólki að koma í smá leik með okkur, leyfa fólki að komast í snertingu við náttúruna með okkur.“

Signý segir að áhorfandanum verði hleypt inn í ferðalagið þeirra á þetta svæði. Hún vill ekki skemma reynslu sýningargesta með því að segja of mikið frá því sem tekur við þeim við komuna inn í rýmið en segir að þau séu búin að flytja náttúruna inn í rýmið að einhverju leyti.

Sýningin verður opin bæði laugar­dag og sunnudag frá þrjú til sex.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.