Fótbolti

Sextán ár síðan svínshöfði var kastað í átt að Figo | Myndband

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Figo tekur horn í leiknum eftirminnilega. Rétt við hornfánann má sjá svínshöfuðið.
Figo tekur horn í leiknum eftirminnilega. Rétt við hornfánann má sjá svínshöfuðið. vísir/getty
Það hefur ýmislegt gengið á þegar Barcelona og Real Madrid hafa mæst á knattspyrnuvellinum en allra mesti hasarinn var í leik liðanna fyrir sextán árum síðan.

Þá var Portúgalinn Luis Figo að spila sinn annan leik á Nou Camp eftir að hann gekk í raðir Real Madrid frá Barcelona.

Í fyrsta leiknum þótti ekki óhætt að leyfa honum að taka hornspyrnur. Hatrið í hans garð í Katalóníu var yfirgengilegt og flöskum rigndi yfir rútu Real á leið á völlinn.

Nú voru tvö ár liðin og ekki hægt að fela Figo lengur. Menn héldu líka að stuðningsmenn Barcelona væru komnir yfir þetta mál. Það var rangt mat.

Aðskotahlutum rigndi yfir Figo í hornspyrnunum og á einum tímapunkti lenti svínshöfuð rétt við fánann. Þá var einnig reynt að kasta smápeningum, viskíflösku og hnífi í átt að Figo. Þá fékk dómarinn nóg og stöðvaði leikinn í tólf mínútur á meðan reynt var að róa áhorfendur niður.

Margir vildu kenna Figo um að æsa áhorfendur upp. Hann gekk alltaf í mestu makindum að hornfánanum og færði rólega til aðskotahlutina. Það litu áhorfendur á sem hroka og ögrun. Þáverandi þjálfari Barcelona, Louis van Gaal, sagði að Figo gæti bara sjálfum sér um kennt.

Barcelona fékk í kjölfarið tveggja leikja heimaleikjabann en þeim dómi var síðan breytt í sekt. Hvorki fyrr né síðar hafa verið önnur eins læti á leik liðanna.

Hér að neðan má sjá lætin á leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×