Erlent

Krefst þess að deilan um Gíbraltar verði leyst fyrir Brexit-fund

Atli Ísleifsson skrifar
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, hefur hótað því að sniðganga leiðtogafundinn á morgun.
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, hefur hótað því að sniðganga leiðtogafundinn á morgun. Getty/Pablo Blazquez Dominguez
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, er nú á leiðinni til Brussel þar sem hún mun funda með háttsettum embættismönnum sambandsins til að leggja lokahönd á Brexit-samninginn. Leiðtogar aðildarríkja ESB munu svo koma saman á morgun til að kvitta undir samninginn.

BBC  segir frá því að forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, hafi hótað því að sniðganga fundinn, takist ekki að ná samkomulagi um stöðu Gíbraltar eftir útgöngu Bretlands.

Nái leiðtogar ESB-ríkjanna saman um samninginn þarf May enn að sannfæra breskan þingheim um að samþykkja samninginn. Gæti það reynst erfitt þar sem stór hluti þingmanna hafi lýst efasemdum um ágæti hans.

Formaður DUP andvígur

Búist er við að Arlene Foster, leiðtogi Lýðræðislega sambandsflokksins (DUP), muni ítreka andstöðu sína við samninginn á flokksfundi síðar í dag, en flokkurinn hefur varið minnihlutastjórn Íhaldsflokksins falli.

Bretland mun formlega ganga úr Evrópusambandinu þann 29. mars á næsta ári. Um 52 prósent breskra kjósenda greiddu atkvæði með útgöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní 2016 og hafa viðræður um útgöngu staðið síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×