Erlent

Orðinn mannskæðasti eldsvoði í sögu ríkisins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Slökkviliðsmaður að störfum í norðurhluta Kaliforníu þann 9. nóvember síðastliðinn.
Slökkviliðsmaður að störfum í norðurhluta Kaliforníu þann 9. nóvember síðastliðinn. AP/Noah Berger
42 eru nú látnir af völdum Camp-eldsins sem geisar í norðurhluta Kaliforníuríkis. Eldurinn er þar með orðinn sá mannskæðasti í sögu ríkisins. Kjarreldar í Kaliforníu hafa nú samtals dregið 44 til dauða síðustu daga. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir neyðarástandi vegna hamfara í ríkinu.

Camp-eldurinn hefur valdið gríðarlegri eyðileggingu en yfir sjö þúsund byggingar hafa orðið eldinum að bráð. Þá hefur bærinn Paradise brunnið til grunna og um 50 þúsund manns hafa neyðst til að flýja heimili sín þar sem eldurinn geisar. Þá logar Woolsey-eldurinn enn í grennd við Los Angeles og hafa tveir týnt lífi vegna hans. 57 þúsund mannvirki eru sögð í hættu vegna eldsvoðans.

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því seint í gærkvöldi að hann hefði samþykkt að lýsa yfir neyðarástandi vegna hamfara í Kaliforníu. Ríkisstjóri Kaliforníu, Jerry Brown, lagði fram opinbera beiðni þess efnis en yfirlýsing neyðarástands tryggir frekari aðstoð frá alríkinu vegna eldanna.

„[Ég] Vildi bregðast hratt við til að lina þær ótrúlegu þjáningar sem eru í gangi. Ég er með ykkur alla leið,“ skrifaði Trump.

Trump hefur þó kennt yfirvöldum í Kaliforníu um umfang eldanna. Hann lýsti því yfir um helgina að stjórnun á skóglendinu væri ábótavant og því hefðu eldarnir breiðst svo hratt út. Þá hefur hann hótað að stöðva fjárútlát til ríkisins í baráttu við eldana.


Tengdar fréttir

Fangar vinna að slökkvistarfi í Kaliforníu

Fangar í Butte-sýslu í Kaliforníu hafa aðstoðað slökkvilið við slökkvistarf við Camp-eldinn sem brunnið hefur undanfarna daga. Fangarnir fá einn dal á tímann fyrir starfið.

„Paradís er horfin“

Rex Stewart, íbúi í Paradís-bæ í norðurhluta Kaliforníu í Bandaríkjunum var á kúpunni þegar hann flutti í bæinn fyrir 40 árum. Hann er í sömu stöðu núna eftir að miklir skógareldar gjöreyðilögðu bæinn þar sem um 27 þúsund manns búa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×