Viðskipti innlent

Héraðssaksóknari kannar gjaldþrot Rosenberg

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rosenberg geispaði golunni í fyrra.
Rosenberg geispaði golunni í fyrra.
Mögulegt bókhaldsbrot í tengslum við gjaldþrot Kaffi Rosenbergs ehf. er komið á borð embættis héraðssaksóknara. Eins og Vísir greindi frá í dag nam gjaldþrot tónleikastaðarins 43 milljónum króna en skiptastjóri þrotabúsins er á vef Ríkisútvarpsins sagður hafa tilkynnt hið hugsanlega brot til embættisins. Rannsókn málsins er þó ekki formlega hafin.

Skiptastjórinn, Hróbjartur Jónsson, segir að þrátt fyrir ítrekaðar kröfur hafi ekki borist bókhaldsupplýsingar frá forsvarsmönnum félagsins. Því hafi verið ákveðið að tilkynna málið til héraðssaksóknara.

Sjá einnig: Gjaldþrot Rosenberg nam 43 milljónum

Rosenberg var í eigu þeirra Kára Sturlusonar og Ólafs Arnar Ólafssonar um fimm mánaða skeið, frá febrúar fram í október í fyrra. Í umfjöllunum um sölu staðarins á sínum tíma var hún sett í samhengi við fjármálagjörninga hljómsveitarinnar Sigur Rósar, en Kári hafði annast málefni hljómsveitarinnar í rúmlega áratug.

Greint var frá því í september á síðasta ári að 35 milljónir króna hefðu horfið úr miðasölu fyrir tónleikaröð Sigur Rósar í Hörpu. Fyrrnefndur Kári hafði fengið 35 milljóna króna fyrirframgreiðslu af miðasölu tónleikanna hjá forstjóra Hörpu, Svanhildi Konráðsdóttur, sem þó sór af sér alla aðkomu að málinu. Þeim peningum virtist Kári síðan hafa ráðstafað í annað sem var viðburðinum í Hörpu og hljómsveitinni með öllu óviðkomandi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×