Viðskipti innlent

Fengu uppsagnarbréf á meðan þeir voru á sjó

Sveinn Arnarsson skrifar
HB Grandi.
HB Grandi.
Uppsagnarbréf sjómanna á Helgu Maríu AK, skipi HB Granda, bárust sjómönnum með ábyrgðarpósti þann 8. nóvember síðastliðinn, meðan þeir voru að veiðum. Áður hafði framkvæmdastjóri fyrirtækisins þverneitað að tekin hefði verið nokkur ákvörðun um að segja upp sjómönnum á skipinu.

„Það er rétt. Ég get staðfest að þeir skipverjar sem hafa þrjá mánuði í uppsagnarfrest eða lengri hafa fengið uppsagnarbréf frá okkur. Við munum svo á næstu mánuðum meta stöðu skipsins og endurskoða reksturinn á skipinu,“ segir Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri HB Granda. „Það hefur engin ákvörðun verið tekin um framtíð skipsins en allar hugmyndir uppi á borðinu hvað það varðar.“

Skipið hélt til veiða í lok október en áður var haldinn starfsmannafundur um borð þar sem skipverjum var tjáð að fram undan yrðu mögulegar uppsagnir og breytingar á útgerð skipsins.

HB Grandi hefur á síðustu vikum hagrætt nokkuð í rekstri sínum með uppsögnum á starfsfólki, bæði á Akranesi og á Norðausturlandi, en fyrirtækið er umsvifamikið á Vopnafirði. Ekki er svo langt síðan fyrirtækið ákvað að flytja alla landvinnslu sína frá Akranesi til Reykjavíkur.

„Þetta er ekki gott, enn eitt höggið fyrir okkur á Akranesi en Helga María er sannarlega skráð hjá okkur. Það er alveg ljóst að fyrir­tækið leitar nú gríðarlegrar hagræðingar sem birtist í uppsögnum þeirra sem búa til verðmætin. Það er aldrei gott þegar fólk missir vinnuna,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. „Maður veltir því fyrir sér hver ábyrgð lífeyrissjóðanna okkar sé sem eiga um helming í fyrirtækinu eins og staðan er núna,“ bætir Vilhjálmur við.

HB Grandi hefur á síðustu misserum tekið í notkun þrjú ný og mjög afkastamikil ísfiskskip. Helga María er eitt elsta skipið í flota fyrirtækisins sem nú leitar allra leiða til að hagræða í rekstrinum. Ekki er á þessu stigi vitað hvort skipverjar á Helgu Maríu fái pláss á öðrum skipum fyrirtækisins verði þeirra skipi lagt og það selt.

vísir/eyþór

Tengdar fréttir

Hópuppsagnir hjá HB Granda

Ellefu starfsmönnum frystihúss HB Granda á Vopnafirði var sagt upp störfum í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×