Innlent

Fasteignagjöld fylgi ekki markaðshækkun fasteigna

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerði.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerði. Fréttablaðið/Eyþór
„Fasteignaverð hefur hækkað mjög skarpt í Hveragerði að undanförnu með þeirri beinu afleiðingu að fasteignamat í bæjarfélaginu hefur hækkað mjög mikið,“ segir bæjarstjórn Hveragerðis sem kveðst vegna þessa hafa ákveðið að lækka álagningarprósentur fasteignagjalda á íbúðar- og atvinnuhúsnæði.

Fasteignamat í Árborg hækkaði að meðaltali um 22 prósent milli ára. Í Facebook-hópi íbúa á Selfossi er nú rætt um að einnig verði að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda þar. Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar Árborgar, segir að ekkert hafi enn verið ákveðið um þetta en lækkun prósentunnar hafi þó verið rædd.

„Við erum í fjárhagsáætlunarvinnu og fyrri umræða um fjárhagsáætlunina verður í næstu viku. Í áætluninni kemur með annars fram álagningarprósenta fasteignaskatts,“ útskýrir Helgi. „En þetta er alveg inni í umræðunni og ég held að flest sveitarfélög þar sem er svona gígantísk hækkun séu ekki að fara að nýta það til að taka það allt úr vasa íbúanna.“

Í Hveragerði lækkar álagningarprósentan á íbúðarhúsnæði úr 0,40 í 0,36 prósent og lóðarleiga úr 0,9 í 0,75 prósent. Álagningarprósenta á atvinnuhúsnæði lækkar úr 1,60 í 1,5 prósent og lóðarleiga úr 1,7 í 1,5 prósent.

„Með þessu er komið til móts við þær miklu hækkanir á gjöldum sem annars hefðu orðið að veruleika,“ segir í fundargerð bæjarstjórnar Hveragerðis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×