Íslenski boltinn

KR skoraði átta mörk gegn Víkingi í fyrsta leik Arnars

Anton Ingi Leifsson skrifar
Erfið byrjun hjá Arnari í Víkinni.
Erfið byrjun hjá Arnari í Víkinni. mynd/víkingur
Fyrsti leikur í Bose-mótinu var spilaður í Víkinni í gær þar sem heimamenn fengu KR-inga í heimsókn en þau eru í riðli með Stjörnunni í mótinu. KR skellti Víkingum 8-2. FH, HK og Breiðablik eru í hinum riðlinum.

Arnar Gunnlaugsson tók við Víkingi að tímabilinu loknu af Loga Ólafssyni og það byrjaði ekki vel því eftir tíu mínútur var staðan orðinn 2-0 fyrir KR-ingum.

Alex Freyr Hilmarsson kom KR yfir gegn sínum gömlu félögum og Atli Sigurjónsson bætti við öðru marki.

Víkingar komu hins vegar til baka í fyrri hálfleik en ungu strákarnir Logi Tómasson og Sindri Scheving jöfnuðu metin og allt stefndi í að það væri jafnt í hálfleik.

Alex Freyr var ekki á sama máli og skoraði annað mark sitt og þriðja mark KR í uppbótartíma í fyrri hálfleik.

Það voru ekki liðnar nema nokkrar sekúndur af síðari hálfleik er Alex Freyr fullkomnaði þrennu sína.

Hans fyrsti leikur með KR og byrjar á þrennu gegn gömlu félögunum. Ágætis byrjun það.

KR-ingarnir komnir í 4-2 og þeir bættu við fjórum mörkum á síðasta hálftímanum.

Daninn Kennie Choppart gerði tvö, Pablo Punyed eitt og fyrirliðinn Pálmi Rafn Pálmason eitt.

Ótrúlegur tíu marka leikur í Víkinni í gær en Víkingur mætist næst Stjörnunni þriðjudaginn 20. nóvember. KR-ingar spila við Stjörnuna vikuna eftir.

Næsti leikur Bose-mótsins er á laugardaginn er Breiðablik og FH mætast í Fífunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×