Ótrúleg endurkoma Sviss skýtur þeim í úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Haris Seferovic skoraði þrennu í magnaðri endurkomu Sviss
Haris Seferovic skoraði þrennu í magnaðri endurkomu Sviss vísir/getty
Sviss verður á meðal þátttökuþjóða í úrslitakeppni A-deildar Þjóðadeildarinnar næsta sumar eftir hreint magnaðan sigur á Belgum í úrslitaleik riðils 2 þar sem við Íslendingar vermum botnsætið.

Það blés ekki byrlega fyrir Sviss í upphafi því Thorgan Hazard kom Belgíu í 0-2 á fyrstu sautján mínútum leiksins og þar með orðið ljóst að Sviss þurfti að skora minnst fjögur mörk til viðbótar þar sem þeir þurftu að vinna tveggja marka sigur til að tryggja sér toppsætið.

Heimamönnum var færð líflína þegar Nacer Chadli braut klaufalega af sér innan vítateigs eftir tæplega hálftíma leik. Ricardo Rodriguez fór á punktinn og skoraði. Það átti heldur betur eftir að koma heimamönnum á bragðið því áður en fyrri hálfleikur var allur var staðan orðin 3-2, Sviss í vil. 

Þeir voru langt frá því að vera hættir því Nico Elvedi kom Sviss í 4-2 eftir klukkutíma leik og Sviss komið í kjörstöðu. Belgarnir reyndu hvað þeir gátu að koma sér aftur í gang en allt kom fyrir ekki og Haris Seferovic gerði endanlega út um leikinn þegar hann skoraði þriðja mark sitt og fimmta mark Sviss á 84.mínútu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira