Lífið

Aron og Kristbjörg greina frá nafni sonarins á frumlegan hátt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kveðjukoss fyrir brottför á HM í Rússlandi í sumar. Kristbjörg Jónasdóttir smellir einum á landsliðsfyrirliðinn Aron Einar.
Kveðjukoss fyrir brottför á HM í Rússlandi í sumar. Kristbjörg Jónasdóttir smellir einum á landsliðsfyrirliðinn Aron Einar. Vísir/EgillA
Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði og Kristbjörg Jónasdóttir einkaþjálfari hafa gefið yngri syni sínum nafn. Þetta kemur fram í sjálfsævisögu Arons Einars, Aron - Sagan mín, sem kemur í verslanir í dag. Sá ungi hefur fengið nafnið Tristan Þór.

„Fyrir Óliver Breka og Tristan Þór“ segir í upphafi bókarinnar en eftir því sem fréttastofa kemst næst hafa hjónakornin ekki upplýst um nýja nafnið. Óhætt er að segja að opinberun nafnsins sé gerð á lúmskan og skemmtilegan hátt. Tristan Þór er óskírður en hjónin ákváðu að koma fólkinu sínu á óvart og tilkynna um nafnið á þennan hátt.

Aron Einar tileinkar sonum sínum tveimur bókina.
Aron og Kristbjörg eiga fyrir soninn Óliver Breka. Eins og frægt er missti Aron af fæðingu Ólivers Breka í mars 2015 en þá var íslenska landsliðið í Kasakstan að undirbúa sig fyrir mikilvægan leik í undankeppni EM 2016. 

Hann var hins vegar við hlið Kristbjargar þegar Tristan Þór fæddist í september en hann hafði gefið það út að hann ætlaði svo sannarlega ekki að missa af annarri fæðingu.

Hjónin búa á Bretlandseyjum þar sem Aron spilar knattspyrnu með Cardiff í ensku úrvalssdeildinni.

Vísir ræddi við Aron Einar í Belgíu á dögunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.