Erlent

Hóta að halda áfram kjarnorkuuppbyggingu verði viðskiptaþvingunum ekki aflétt

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu (t.h.) og Donald Trump Bandaríkjaforseti á leiðtogafundi þeirra í Singapúr fyrr á árinu.
Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu (t.h.) og Donald Trump Bandaríkjaforseti á leiðtogafundi þeirra í Singapúr fyrr á árinu. Vísir/Getty
Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa kallað eftir því að Bandaríkin aflétti viðskiptaþvingunum gagnvart sér, ellegar íhugi þau að endurhugsa stefnu sína í kjarnorkumálum.  

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu gaf út í gærkvöldi. Þar segir að stjórnvöld landsins gætu ákveðið að endurvekja svokallaða „pyongjin“-stefnu sem snýr að uppbyggingu kjarnorkuvopnabúrs landsins á sama tíma og ráðist er í efnahagslega uppbyggingu.

Norðurkóresk stjórnvöld gengu þó ekki svo langt að hóta að slíta samningaviðræðum við Bandaríkjamenn, en ríkin tvö hafa staðið í viðræðum, meðal annars um kjarnorkumál, síðan Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, funduðu í Singapúr í júní á þessu ári.

Utanríkisráðherrar funda von bráðar

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í viðtali við Fox-fréttastöðina í gær að fyrirætlaður væri í næstu viku fundur milli hans og norðurkóreska utanríkisráðherrans Kim Yong Chol. Pompeo gaf ekki upp nákvæma tímasetningu eða staðsetningu fundarins sem mun að öllum líkindum snúa að því að sannfæra Norður-Kóreumenn um að ganga lengra í kjarnorkuafvopnun.

„Það er mikil vinna fyrir höndum, en ég er handviss um það að við munum halda áfram að beita efnahagslegum þrýstingi þar til formaðurinn Kim hefur staðið við þau loforð sem hann gaf Trump forseta í júní,“ sagði Pompeo í viðtalinu.

Norður-Kórea „hlær“ að hugmyndum Bandaríkjanna

Í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis Norður-Kóreu segir að umbætur á sambandi ríkjanna og viðskiptaþvinganir séu tveir gagnverkandi þættir.

„Bandaríkin telja að síendurteknar „þvinganir og þrýstingur“ muni leiða til „kjarnorkuafvopnunar.“ Við getum ekki annað en hlegið að svo kjánalegum hugmyndum.“

Þá sagði í yfirlýsingunni að aflétting viðskiptaþvingana væru eðlileg og viðeigandi viðbrögð við „frumkvæði og lipurð“ Norður-Kóreu í kjarnorkuafvopnun til þessa.


Tengdar fréttir

Kim ætlar að loka skotpöllum og tilraunasvæðum

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, samþykkti á fundi með Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, að einum aðal eldflaugaskotpalli ríkisins yrði lokað. Þá stefna ríkin á að afkjarnorkuvopnavæða Kóreu-skaga.

Stefnir í annan fund með Trump

Bandaríski miðillinn Politico sagði í gær að þar í landi fylgdust stjórnvöld náið með fundinum í vikunni og reyndu að komast að því hvort grundvöllur væri fyrir öðrum leiðtogafundi Trumps og Kim




Fleiri fréttir

Sjá meira


×