Erlent

Fimm látnir vegna skógarelda í Kaliforníu

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Illa leikinn bíll í Kaliforníu þar sem gríðarlegir skógareldar geisa.
Illa leikinn bíll í Kaliforníu þar sem gríðarlegir skógareldar geisa. AP/Gillian Flaccus
Að minnsta kosti fimm eru látnir af völdum gríðarlegra skógarelda sem geisað hafa í norðurhluta Kaliforníu. Þúsundir bygginga hafa einnig orðið eldinum að bráð en eldurinn fer hratt yfir. Yfir 150.000 manns hefur verið gert að yfirgefa heimili sín vegna eldanna og allt í allt hafa 75 þúsund heimili á svæðinu verið rýmd.

Hin látnu fundust í bílum sínum en eldar geisa á tveimur stöðum. Annar eldurinn nálgast nú þjóðveg vestur af Los Angeles og nú í kvöld hafði hann teygt sig yfir 5665 hektara svæði. Íbúum á svæðinu í kringum þjóðveginn, eins og til dæmis Calabasas og Malibu, hefur verið gert að yfirgefa heimili sín. Margir frægir einstaklingar eins og til dæmis Kim Kardashian búa á svæðinu og bað Kim fólk um að biðja fyrir Calabasas og þá tísti eiginmaður hennar, rapparinn Kanye West að þau væru óhult.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Kaliforníu en umfangsmiklir skógareldar hafa verið tíðir þar að undanförnu. Ekki er búist við því að ástandið muni skána á næstunni þar sem rakastig er mjög lágt og vindar eru sterkir á svæðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×