Skoðun

Umbreytingar í fjármálaþjónustu

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar

Það hefur ekki farið fram hjá mörgum að miklar umbreytingar eiga sér stað í fjármálaþjónustu nú þegar fjártæknin er farin að bjóða upp á fjölmörg ný tækifæri. Á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans sem haldinn var á Balí nú í október, var lögð fram skýrsla (Bali Fintech Agenda) sem á að aðstoða aðildarríkin við að móta sína eigin stefnu og nálgun á þessa nýju grein. 

Í skýrslunni eru lögð fram tólf stefnumarkandi viðmið sem ríkin geta haft til hliðsjónar. Vonir standa til þess að viðmiðin stuðli að auknu samstarfi milli ríkjanna sem og aðstoði þau við að móta sitt eigið umhverfi. Áhersla er lögð á að hefta ekki vöxt greinarinnar en jafnframt er leitast við að draga samhliða úr áhættutengdri starfsemi. Viðmiðin eru:

  1.  Fagna og vekja athygli á þeim möguleikum sem fjártækni býður upp á.
  2. Útvíkka ákvæði um fjármálaþjónustu með tilkomu nýrrar tækni.
  3. Styrkja samkeppni og skuldbindingar um frjálsan og opinn markað.
  4. Gera fjártækni kleift að taka þátt í aðlögun og mótun fjármálamarkaðarins.
  5. Fylgjast vel með þróun markaða til að auka og dýpka skilning á þróun fjármálakerfisins.
  6. Aðlaga reglugerðar- og eftirlitsumhverfi sem miðar að stöðugu og skipulögðu fjármálakerfi.
  7.  Standa vörð um traust á fjármálakerfinu.
  8.  Nútímavæða núverandi lagaumhverfi.
  9.  Tryggja stöðugleika gjaldmiðils og fjármálakerfisins.
  10. Byggja upp sterka fjármála- og gagnainnviði innan fjármálakerfisins til að viðhalda möguleikum í fjártækni.
  11. Hvetja til alþjóðlegrar samvinnu og upplýsingaskipta.
  12. Auka sameiginlegt eftirlit með gjaldeyris- og fjármálakerfum.

Það er alveg ljóst að þessi nýja tækni býður upp á mikla möguleika til að bæta til muna fjármálaþjónustu fyrir neytendur en gefa jafnframt hinu opinbera og stofnunum þess eins og Seðlabankanum kleift að sinna hlutverki sínu betur. 

Við höfum núna tækifæri til að taka saman höndum, hið opinbera og einkaaðilar, til að móta umhverfi sem tryggir það að báðir aðilar geti nýtt þau tækifæri og þá möguleika sem framtíðin býður upp á. Hið opinbera getur aðstoðað við að draga úr áhættuþáttum og fyrirtækin þróað gagnsætt og þjónustumiðað fjármálakerfi öllum til góða.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×