Erlent

Blæddi úr augum og nösum farþega eftir að flugmenn gleymdu rofanum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandi sem farþegi vélar Jet Airways deildi á Twitter.
Skjáskot úr myndbandi sem farþegi vélar Jet Airways deildi á Twitter. Skjáskot/Twitter
Yfir þrjátíu farþegar indverska flugfélagsins Jet Airways slösuðust í flugi félagsins í morgun eftir að flugmenn vélarinnar gleymdu að kveikja á rofa sem stýrir loftþrýstingi í farþegarýminu. Í frétt BBC kemur fram að blætt hafi úr augum og nefum farþega vegna þessa.

Flugvélin var á leið frá Mumbai til borgarinnar Jaipur en sneri til baka stuttu eftir flugtak. Í myndböndum sem farþegar vélarinnar deildu á Twitter má sjá súrefnisgrímur hangandi fyrir ofan sætin. Þá birti einn farþegi vélarinnar, Satish Nair, mynd af sér þar sem blæðir úr nefi hans. Hann sagði jafnframt að „öryggi farþega hafi verið virt gjörsamlega að vettugi.“

Þá segir í yfirlýsingu frá Jet Airways að fluginu hefði verið snúið við sökum „lækkunar á loftþrýstingi í farþegarýminu“. Félagið harmar jafnframt óþægindin sem þetta hafi valdið farþegunum.

Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að allir farþegarnir 166 um borð í vélinni hafi komist heilir og höldnu inn í flugstöðina við lendingu. Þá hafi verið gert að sárum nokkurra farþega vegna blóðnasa og verkja í eyrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×