Erlent

Lagði til byggingu veggjar yfir Sahara

Samúel Karl Ólason skrifar
Sahara-eyðimörkin er um fimm þúsund kílómetra breið og tilheyrir fjölmörgum ríkjum, sem öll eiga það sameiginlegt að vera ekki Spánn.
Sahara-eyðimörkin er um fimm þúsund kílómetra breið og tilheyrir fjölmörgum ríkjum, sem öll eiga það sameiginlegt að vera ekki Spánn. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, stakk upp á því við Josep Borrell, utanríkisráðherra Spánar, að Spánverjar ættu að byggja vegg yfir Sahara-eyðimörkina. Þannig væri hægt að koma í veg fyrir að innflytjendur frá Afríku kæmu til Evrópu í jafn miklu mæli og nú. Þetta kemur fram í fjölmiðlum á Spáni sem segja samtal Trump og Borrell hafa átt sér stað í júní þegar hann heimsótti Bandaríkin með konungi og drottningu Spánar.

Borrell mun hafa sagt frá þessum samskiptum sínum við Trump á hádegisverði um síðustu helgi. Utanríkisráðuneytið hefur staðfest ummælin.

Sky News segir Trump hafa vitnað í eigið verkefni til að draga úr fjölda ólöglegra innflytjenda frá Suður-Ameríku. Hann hefur lengi viljað byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó en án stuðnings frá þingmönnum hefur lítið gengið í þeim málum. Mörgum þykir það óhagkvæmt að byggja rúmlega þrjú þúsund kílómetra langan vegg.

„Landamærin við Sahara geta varla verið lengri en landamæri okkar og Mexíkó,“ á Trump að hafa sagt við Borell.

Sahara-eyðimörkin er um fimm þúsund kílómetra breið og tilheyrir fjölmörgum ríkjum, sem öll eiga það sameiginlegt að vera ekki Spánn. Það gæti því reynst yfirvöldum Spánar erfitt að byggja vegg þvert yfir eyðimörkina.

Minnst 33.600 farand- og flóttamenn hafa ferðast til Spánar það sem af er þessu ári og er það þrefalt fleiri en á sama tímabili í fyrra. Minnst 1.723 hafa dáið við að reyna að komast til Spánar. Samkvæmt Guardian hefur það reynt verulega á innviði í Suður-Spáni og hafa stjórnarandstæðingar gagnrýnt Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, fyrir linkind gagnvart innflytjendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×