Viðskipti erlent

Amazon stefnir á stórsókn í kassalausum verslunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Viðskiptavinir nota símann sinn til að komast inn í verslunina.
Viðskiptavinir nota símann sinn til að komast inn í verslunina. Cnet
Amazon.com Inc., sem er hvað þekktast fyrir samnefnda netverslun, stefnir á að opna þúsundir nýrra matvöruverslana á allra næstu árum. Heimildarmenn Bloomberg telja að fjölgunin geti numið 3000 nýjum AmazonGo-verslunum fram til ársins 2021 - og yrði því um „ágenga og kostnaðarsama“ markaðssókn að ræða.

Matvöruverslanir Amazon svipa til verslana á borð við 10-11 á Íslandi eða 7-Eleven erlendis. Stærsti munurinn á verslununum er hins vegar sá að í AmazonGo-búðunum eru engir kassastarfsmenn. Þess í stað nota viðskiptavinirnir snjallsímaforrit til að komast inn í verslunina. Því næst grípa þeir með sér vörur og ganga aftur út úr versluninni án þess að stoppa og greiða fyrir vörurnar. Skynjarar og myndavélar greina hvaða vörur urðu fyrir valinu og rukka viðskiptavinina sjálfkrafa þegar þeir yfirgefa búðina.

Framkvæmdastjóri Amazon, auðjöfurinn Jeff Bezos, telur að þetta fyrirkomulag komi í veg fyrir tímafrekar raðir sem oft geta myndast við kassana. Tímasparnaðurinn geti skipt sköpum, ekki síst í hádegisörtröðinni í fjölmennum stórborgum.

Það sem helst stendur í vegi fyrir frekari innreið AmazonGo-verslananna er gríðarlegur kostnaður. Heimildarmaður Bloomberg telur að opnun AmazonGo-verslunarinnar í miðborg Seattle hafi kostað rúmlega milljón bandaríkjadali, meira en 110 milljónir króna.

Því telja greinendur að Amazon muni í fyrstu leggja áherslu á tilbúin matvæli í verslunum sínum. Slík áhersla myndi ekki aðeins lækka startkostnað hverrar verslunar, sem þyrfti færri skynjara og myndavélar fyrir vikið, heldur er meiri framlegð af tilbúnum vörum en öðrum matvælum. Það myndi þannig stytta tímann sem það tæki hvert útibú að byrja að skila hagnaði.

Orðrómurinn um hin metnaðarfullu áform Amazon hafa þegar haft áhrif á mörkuðum vestanhafs. Hlutabréfaverð í hinum gamalgróna verslunarrisa Walmart hefur til að mynda lækkað um 0,6 prósent, bréf í Target lækkuðu um 1,5 prósent og Kroger co. um 3,1 prósent.

Hér að neðan má sjá hvernig AmazonGo-verslanirnar virka.


Tengdar fréttir

Amazon opnar kassalausa búð

Verslunin virkar þannig að skynjarar og myndavélar fylgjast með því hvað viðskiptavinir taka úr hillunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×