Skoðun

Hver kenndi þér að segja þetta?

Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm skrifar
Áhugi minn á stjórnmálum er langt frá því að vera nýtilkominn og kom það engum sem þekkir mig á óvart þegar ég ákvað að taka stökkið og taka þátt í stjórnmálastarfi. Ég sagði í gríni við vinkonu mína fyrir stuttu ,,ég er nú einu sinni orðin pólitíkus.” Hún horfði blíðlega á mig og sagði að það hefði ég alltaf verið, ég hefði bara verið í smá afneitun.

Það er ekkert smámál, raunar meira en mig hafði grunað, fyrir unga konu að hefja starf innan stjórnmálahreyfingar. Og þá á ég ekki við vegferðina innan hreyfingarinnar, hún hefur verið stórskemmtileg og þar hefur mér verið tekið opnum örmum, á mig hlustað og skoðanir mínar og reynsla virtar. Ég er að tala um viðbrögð annars fólks, oft fólks sem ég þekki lítið. Kunningar í raunheimum og á Facebook hafa á þessu mikla skoðun. ,,Það er aldeilis að þú ert vel þjálfuð af flokknum,” ,,hún er aldeilis sterk flokkshollustan, og þú bara nýbyrjuð” og uppáhaldið mitt ,,hver kenndi þér að segja þetta?” Þessar setningar og fleiri svipaðar hef ég fengið að heyra ef ég tjái mig um stjórnmál, persónur og atvik úr samfélaginu eða bara hvað sem er.

Afhverju gerir fólk ráð fyrir að ég hafi ekki myndað mér mínar skoðanir sjálf? Er það af því ég er ung? Af því ég er ung kona? Er það nema von að ungt fólk sækist ekki eftir því að starfa í pólitík þegar þetta er það sem þau fá að heyra. Hættum þessu. Það kenndi mér enginn að segja neitt.

Og með því hvet ég allt ungt fólk sem hefur áhuga á stjórnmálum og samfélaginu í kringum sig að kynna sér starf ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna.

Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm

Formaður Ungra vinstri grænna




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×