Erlent

Hafnar fréttum um að hann hafi unnið að því að koma Trump frá völdum

Atli Ísleifsson skrifar
Rod Rosenstein er aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Rod Rosenstein er aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Rod Rosenstein, hefur hafnað fréttum um að hann hafi rætt möguleikann á að virkja ákvæði í stjórnarskrá Bandaríkjanna um að koma Bandaríkjaforseta frá völdum.

Rosenstein segir fréttina, sem birtist í New York Times, bæði vera ónákvæma og ranga. Heimildir New York Times herma að aðstoðarráðherrann hafi einnig lagt til að hljóðrita Trump til að sýna fram á ringulreiðina sem ríki í Hvíta húsinu. Rosenstein á að hafa látið ummælin falla í kjölfar þess að Trump rak James Comey, forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI, á síðasta ári.

Í frétt NYT segir að Rosenstein hafi rætt um það við fulltrúa dómsmálaráðuneytisins og alríkislögreglunnar í maí 2017 að fá ráðherra í ríkisstjórninni til að virkja 25. grein stjórnarskrárinnar sem felur í sér að ríkisstjórn geti komið forseta frá, telji hún hann óhæfan til að gegna embættinu.

Er vísað í heimildarmenn sem var greint frá samtölunum og minnisblöð Andrew McCabe, áður starfandi forstjóri FBI, þar sem samtölin eru tíunduð.

Í frétt BBC  er haft eftir Rosenstein að samkvæmt kynnum og samskiptum hans við forsetann sé engin ástæða til þess að virkja 25. grein stjórnarskrárinnar. Hann segist ekki ætla að tjá sig frekar um fréttina sem byggi á ónafngreindum heimildarmönnum sem vinni gegn ráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×