Erlent

Ýjar að því að starf Rosenstein sé í hættu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur ýjað að því í viðtali við Fox News að starf Rod Rosensteins, aðstoðardómsmálaráðherra og yfirmanns Roberts Muellers sem rannsakar meint afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum og tengsl þeirra við framboð Bandaríkjaforseta, sé í hættu.

Þetta kemur fram í viðtali við Pompeo sem birt verður á sunnudaginn en bútar úr því hafa verið sýndir. Í viðtalinu er Pompeo spurður um frétt New York Times þar sem blaðið hafði eftir heimildarmönnum að Rosenstein hafi rætt möguleikann á að virkja ákvæði í stjórnarskrá Bandaríkjanna um að koma Bandaríkjaforseta frá völdum og lagt til hljóðrita Trump til að sýna fram á ringulreiðina sem ríki í Hvíta húsinu. Rosenstein hefur hafnað fréttaflutning blaðsins.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.Vísir/AP
„Ef þú getur ekki verið einn af liðinu, ef þú styður ekki það sem við erum að gera, þá ættirðu kannski að vera að gera eitthvað annað,“ er haft eftir Pompeo í viðtalinu. Er hann þá spurður hvort að það sem Rosenstein er sagður hafa verið að áætla feli það í sér að vera liðsmaður í liðinu.

„Ekki nálægt því,“ svarar Pompeo.

Rannsókn Muellers hefur verið sem þyrnir í augum Donald Trump, forseta Bandaríkjanna um lengri tíma og hefur sú reiði oftar en ekki beinst að Rosenstein sem varð yfirmaður hennar eftir að Jeff Session, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði sig frá rannsókninni.

Trump hefur ítrekað verið sagður vilja losna við Rosenstein og eftir að frétt New York Times um Rosenstein birtist í vikunni hafa vangaveltur þess efnis að Trump muni láta verða að því að reka Rosenstein orðið fyrirferðarmeira.

Sjálfur ýtti Trump undir slíkar vangaveltur á föstudaginn á fjöldafundi í Springfield í Missouri þar sem hann hét því að losa Bandarísku alríkislögreglunna og dómsmálaráðuneytið undan „óþef svikseminnar“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×