Erlent

Lífstíðardómur Madsen stendur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Peter Madsen var í apríl dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á Kim Wall.
Peter Madsen var í apríl dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á Kim Wall. Vísir/getty

Danski kafbátasmiðurinn Peter Madsen hlýtur lífstíðardóm fyrir að hafa banað sænsku blaðakonunni Kim Wall á síðasta ári.

Þetta er niðurstaða hins danska Eystri landsréttar, sem staðfesti þar með dóm sem kveðinn var upp í Kaupmannahöfn í vor. Allir fimm dómararnir voru sammála, sem danska ríkisútvarpið segir undirstrika alvarleika málsins.

Sjá einnig: Peter Madsen dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á Kim Wall

Lífstíðardómur í Danmörku jafngildir alla jafna um 16 ára fangelsi en hægt er að framlengja hann ef þörf er talin á. Madsen, sem hefur ætíð haldið því fram að Wall hafi látist af slysförum í kafbáti hans, vildi að dómur hans yrði tímabundinn en ekki „opinn í annan endann“ eins og því er lýst. Því áfrýjaði hann dómnum sem hann hlaut þann 25. apríl síðastliðinn.

Áfrýjunin var tekin fyrir í upphafi mánaðarins en markmið hennar var ekki að reyna að sýna fram á sakleysi Madsen. Madsen játaði við aðalmeðferð málsins að hafa losað sig við líkamsleifar Wall út í Eystrasaltið og eftir að hann var einnig fundinn sekur um að hafa myrt blaðakonuna sagðist hann una dómnum - að frátaldri lengd hans.

Sakfelldur fyrir fjölda brota

Wall fór með Madsen um borð í kafbát hans þann 10. ágúst 2017. Var hún að vinna að blaðagrein um Madsen og var ferðin í kafbátinn hluti af því verkefni. Madsen var handtekinn daginn eftir en kafbáturinn hafði þá sokkið og Wall var horfin.

Í janúar síðastliðnum var Madsen síðan ákærður fyrir að hafa orðið Wall að bana. Hann neitaði sök í málinu og sagði Wall hafa látist um borð í kafbát hans vegna koltvísýringseitrunar. 

Hann var einnig ákærður fyrir illa meðferð á líki en Madsen játaði að hafa bútað lík Wall niður. Hann neitaði hins vegar fyrir dómi að lýsa því hvernig hann hefði gert það. Þá var hann einnig ákærður fyrir kynferðisbrot. Var Madsen einnig dæmdur fyrir bæði þessi brot. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×