Skoðun

Stöndum vörð um mannréttindi

Guðlaugur Þór Þórðarson skrifar

Það er af nógu að taka hjá Michelle Bach­elet, sem í dag flytur mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna sína fyrstu yfirlitsskýrslu frá því að hún var skipuð mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna í sumar. Í skýrslu sem nú liggur fyrir ráðinu um ofsóknir stjórnvalda í Mjanmar gegn Róhingjum eru þannig færð rök fyrir því að þar hafi þjóðarmorð og glæpir gegn mannkyni verið framin. Í annarri skýrslu er hernaður stríðandi fylkinga í Jemen talinn jaðra við stríðsglæpi. Einkum eru mannskæðar loft­árásir hernaðarbandalags Sádi-Araba gagnrýndar en þær hafa bitnað sérstaklega hart á almennum borgurum.

Fundarlotan sem hefst í mannréttindaráðinu í Genf í dag er sú fyrsta sem fulltrúar okkar sækja síðan Ísland var kjörið til setu í ráðinu í sumar. Við erum stolt af því trausti sem okkur er sýnt en gerum okkur grein fyrir því að nú hefst verkefnið fyrir alvöru. Það er krefjandi og við viljum leysa það vel af hendi. Því legg ég áherslu á samráð innan stjórnarráðsins, viðeigandi stofnana og við Alþingi. Þegar kemur að virðingu fyrir mannréttindum erum við öll í sama liði.

Auk málefna Róhingja og Jemen má vænta þess að ástandið í Sýrlandi, Líbíu, Sómalíu og fleiri ríkjum beri hátt í þessari fundarlotu, sem stendur í þrjár vikur. Þá má gera ráð fyrir umræðu um réttindi frumbyggja sem og réttindi aldraðra, um þvinguð mannshvörf, mansal og réttinn til þróunar, svo fátt eitt sé nefnt.

Ég hef gagnrýnt að í mannréttindaráðinu sitja ríki sem frekar ættu að vera umfjöllunarefni ráðsins en sitja í dómarasætinu. Sádi-Arabía, Venesúela og Filippseyjar hafa gerst sek um alvarleg mannréttindabrot – svo þrjú nærtæk dæmi séu nefnd. Við erum óhrædd við að gagnrýna þau og brýna. Um leið væntum við góðs af samstarfi við ríki í ráðinu sem deila með okkur grundvallarafstöðu til mannréttindamála.




Skoðun

Sjá meira


×