Skoðun

Er kerfið að verja laxeldisfyrirtæki?

Bubbi Morthens skrifar

Laxeldisfyrirtækið Arnarlax virðist njóta velvildar í stjórnsýslunni og þarf ekki að fara að lögum. Tveir landeigendur hafa ítrekað kvartað vegna þess sem þeir telja vera brot á starfsleyfi fyrirtækisins en þeir fá engin svör frá Umhverfisstofnun.



Arnarlax tæmdi sjókvíar 7. mars síðastliðinn og hóf útsetningu seiða þar á ný 6. júní. Þó segir starfsleyfið að eldissvæðið skuli hvíla í það minnsta sex til átta mánuði.



Hvorki virðist vera deilt um brotin af hálfu Umhverfisstofnunar né Arnarlax. Hvað veldur því að Arnarlax hagar sér ekki samkvæmt starfsleyfi? Umhverfisstofnun virðist telja þetta smámál, að manni sýnist. Þeir sendu að vísu áminningu til fyrirtækisins 16. júlí en hvað gerðist svo? Ekkert. Einfaldlega ekkert annað en það að í Umhverfisstofnun virðist vera ósýnileg lína sem kemur einhvers staðar frá og segir að Arnarlax skuli látinn í friði.



Mengunin sem kemur frá þessum kvíum er rosaleg og hefur gríðarleg áhrif á lífríkið, þess vegna er kveðið á um að það þurfi að hvíla svæðið í átta mánuði. Það er til þess að lífríkið í firðinum geti jafnað sig.



Í úrbótaáætlun frá Arnarlaxi kemur fram að þeir vilji undanþágu frá tilskildum hvíldartíma svæðisins og biðji um að hann verði að lágmarki 90 dagar en ekki átta mánuðir. Ekki kemur fram þar hvers vegna þeir kjósa að fara ekki eftir því sem þeim ber að gera.



Svona gera menn þetta kannski í Noregi en þetta á ekki að gerast hér. Og á meðan þeir hjá Arnarlaxi segja að þessi fyrirspurn sé í vinnslu segir Umhverfis­stofnun að ekkert hafi komið inn á borð til þeirra um undanþágu og sendir skilaboð til norsku eigendanna: Það er allt í góðu að brjóta hér reglur.



Þetta er algjörlega óboðleg stjórnsýsla og vítaverðir stafshættir sem skaða íslenska náttúru.




Skoðun

Sjá meira


×