Erlent

Þrjár milljónir flýja vegna Mangkhut

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Flóð í Guangdong.
Flóð í Guangdong. Vísir/Getty
Mangkhut hélt í gær áfram að hrella Kínverja þegar hann óð vestur yfir landið. Stormurinn hefur róast nokkuð, orðinn hitabeltisstormur en ekki fellibylur. Mangkhut gekk á land í Guangdong-héraði sem fellibylur á sunnudag og hefur hingað til verið tilkynnt um fjögur dauðsföll vegna hamfaranna.

Yfirvöld í Kína fyrirskipuðu í gær rýmingu fjölmargra byggða í nærliggjandi héröðum. Samkvæmt CNN var þremur milljónum gert að yfirgefa heimili sín og finna sér skjól frá storminum.

Gífurleg eyðilegging varð í Hong Kong þegar stormurinn gekk þar yfir á sunnudaginn en þó hvergi nærri jafnmikil og á filippseysku eyjunni Luzon á föstudag. Staðfest er að 66 hafi farist af völdum stormsins og létust flestir þeirra í aurskriðum.

Fréttastofa AP greindi frá því í gær að þeir 40 til 50 námamenn og vandamenn þeirra sem grófust inni í kapellu í bænum Itogon væru að öllum líkindum látnir, að sögn bæjarstjórans Victorio Palangdan.

Samkvæmt spám mun Mangkhut halda áfram nokkuð í vestnorðvestur í átt að borginni Kungming.  




Tengdar fréttir

Mannskæðar aurskriður á Filippseyjum eftir Mangkhut

Talið er að 100 manns séu látnir á Filippseyjum eftir að fellibylurinn Mangkhut gekk þar yfir um helgina. Flest þeirra létust í aurskriðum en björgunaraðilar keppast við að finna eftirlifendur.

Ógurlegt tjón eftir Mangkhut

Minnst 64 eru látnir eftir að hitabeltisstormurinn Mangkhut fór yfir Filippseyjar og suðurhluta Kína. Talið er víst að tala látinna muni hækka enn. Illa gengur að koma björgunarfólki á þau svæði sem verst urðu úti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×