Erlent

Bandaríkin reiðubúin að ræða við Norður-Kóreumenn á ný

Atli Ísleifsson skrifar
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Vísir/AP
Bandaríkjastjórn er reiðubúin að taka upp viðræður við stjórnvöld í Norður-Kóreu á ný, með það að markmiði að kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreu verði lokið í ársbyrjun 2021.

Frá þessu greinir Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandarikjanna. Ráðherrann vísar í skuldbindingar sem Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreumanna, á að hafa lýst yfir á fundi sínum með Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu. Moon er nú í þriggja daga opinberri heimsókn í Norður-Kóreu.

Kim á að hafa heitið því að veita alþjóðlegum eftirlitsaðilum aðgang að kjarnorkustöðvum Norður-Kóreu til að fylgjast með afvopnuninni.

Pompeo segir að hann hafi boðið utanríkisráðherra Norður-Kóreu, Ri Young-ho, til fundar í New York í næstu viku í tengslum við setningu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði beðið Moon um að vera milliliður í samskiptum Bandaríkjastjórnar og Norður-Kóreustjórnar. Svo virðist sem að þíða sé aftur komin í samskipti Bandaríkjanna og Norður-Kóreu, en í lok ágúst aflýsti Trump fyrirhugaðri ferð Pompeo til Norður-Kóreu þar sem hann sagði Norður-Kóreustjórn ekki hafa gert nægilega mikið til að standa við skuldbundingar. Einungis viku síðar sagði hann þó samband hans og Kim vera gott.


Tengdar fréttir

Kim ætlar að loka skotpöllum og tilraunasvæðum

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, samþykkti á fundi með Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, að einum aðal eldflaugaskotpalli ríkisins yrði lokað. Þá stefna ríkin á að afkjarnorkuvopnavæða Kóreu-skaga.

Kóreuþjóðirnar vilja halda Ólympíuleikana 2032

Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Moon Jae, forseti Suður-Kóreu, gáfu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í gær þar sem fram kemur að þjóðirnar ætla að sækja sameiginlega um að halda Ólympíuleikana árið 2032.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×