Fótbolti

Sjáðu mögulegan martraðariðil Liverpool í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagurinn gæti endað illa fyrir Jürgen Klopp.
Dagurinn gæti endað illa fyrir Jürgen Klopp. Vísir/Getty
Liverpool fór alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra en það hjálpar liðinu ekki mikið þegar kemur að styrkleikaröðun fyrir Meistaradeildardráttinn seinna í dag.

Liverpool er í þriðja styrkleikaflokki og fær því tvö mjög sterk lið í sinn riðil. Það eru síðan aðeins tvö lið úr hverjum riðli sem komast í sextán liða úrslit keppninnar.





Síðasta tímabil var aðeins annað Meistaradeildatímabil Liverpool á síðustu átta árum og það er aðalástæðan af hverju lærisveinar Jürgen Klopp fengu ekki meiri ást í styrkleikaröðuninni.

Það munaði samt mjög litlu á Liverpool og ítalska liðinu Roma sem rétt slapp inn í annan styrkleikaflokk.

Manchester City er í fyrsta styrkleikaflokki og hin tvö ensku liðin, Manchester United og Tottenham, eru síðan í öðrum styrkleikaflokki. Lið frá sama landi geta ekki lent saman í riðli.

Þetta þýðir að það er ekki erfitt að setja saman mögulegan martraðariðil Liverpool í Meistaradeildinni.





Liverpool gæti nefnilega lent í riðli með spænska liðinu Real Madrid, þýska liðinu Borussia Dortmund og ítalska liðinu Internazionale Milan. Annar mögulegur martraðarriðill væri riðill með Barcelona, Napoli og Hoffenheim.

Liverpool gæti reyndar líka lent í riðli með Lokomotiv Moskvu, Benfica og Young Boys og það er talsverður styrkleikamunur á þessum tveimur riðlum.

Fyrirfram má búast við því að erfiðustu mögulegu mótherjarnir í öðrum styrkleikaflokki séu Borussia Dortmund, Napoli og Roma.

Léttasti riðill Liverpool ætti að vera riðill með Lokomotiv Moskvu, Shaktar Donetsk og AEK Aþenu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×