Erlent

Demókratar tilkynna tölvuárás til Alríkislögreglunnar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Öryggisfulltrúi Flokksstjórnar Demókrata segir að ríkisstjórn Trumps standi sig ekki sem skyldi í því að verja lýðræðið fyrir tölvuárásum.
Öryggisfulltrúi Flokksstjórnar Demókrata segir að ríkisstjórn Trumps standi sig ekki sem skyldi í því að verja lýðræðið fyrir tölvuárásum. Vísir/Getty
Flokksstjórn Demókrata (The Democratic National Committee) tilkynnti í gær tölvuárás til Alríkislögreglunnar (FBI).

Flokksstjórn Demókrata komst að því í gærmorgun að tilraun hafi verið gerð til að brjótast inn í gagnagrunn Demókrataflokksins til að komast yfir viðkvæmar upplýsingar um kjósendur.

Fréttastofa CNN greinir frá því að flokksstjórnin hafi fengið ábendingu frá netöryggisfyrirtæki þess efnis að óprúttnir aðilar hefðu komið á laggirnar upphafssíðu, sambærilegri þeirri sem flokkurinn notar, í þeim tilgangi að blekkja notendur og komast yfir notendanafn og lykilorð kjósenda.

Verið er að rannsaka hverjir stóðu að baki tilrauninni en öryggisfulltrúi Flokksstjórnar Demókrata segir að þeim hafi ekki tekist ætlunarverk sitt. Demókrataflokknum hafi tekist að tryggja öryggi notenda.

Bob Lord, öryggisfulltrúi hjá flokksstjórn Demókrata, segir að ógnir af þessu tagi séu í reynd grafalvarlegar og að það sé brýnt að allir, þvert á flokkslínur, taki höndum saman til að koma í veg fyrir miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga.

„Við getum ekki gert þetta ein, ríkisstjórn Trumps verður að stíga frekari skref til að standa vörð um kosningakerfið okkar. Það er í þeirra verkahring að verja lýðræðið fyrir árásum af þessum toga,“ segir Lord.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×