Erlent

Tala látinna staðfest og árásarmaðurinn nafngreindur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá blaðamannafundi lögreglu í Jacksonville í gær.
Frá blaðamannafundi lögreglu í Jacksonville í gær. Vísir/AP
Tveir létust og ellefu særðust í skotárás í borginni Jacksonville í Flórída í gær. Árásarmaðurinn framdi sjálfsvíg að lokinni árásinni. Áður hafði verið greint frá því að fjórir hefðu látist í árásinni en sú tala hefur verið leiðrétt.

Árásarmaðurinn hét David Katz og var 24 ára gamall frá Baltimore í Maryland-ríki. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu beitti hann skammbyssu við verknaðinn. Fleiri eru ekki grunaðir um aðild að árásinni.

Sjá einnig: Heyra mátti upphaf skotárásarinnar í beinni útsendingu: „Allir voru grátandi og öskrandi“

Árásin var gerð á tölvuleikjamóti í afþreyingarmiðstöðinni Jacksonville Landing þar sem keppni stóð yfir í tölvuleiknum Madden 2018. Samkvæmt óstaðfestum heimildum fjölmiðla vestanhafs reiddist Katz eftir að hafa tapað leik á mótinu og hóf skothríð.

Katz tók reglulega þátt í tölvuleikjamótum á borð við það sem haldið var í Jacksonville í gær og gekk þar undir nafninu „Bread“. Hann virðist hafa unnið Madden Bills tölvuleikjamótið í fyrra, ef marka má tíst ameríska fótboltaliðsins Buffalo Bills.

Fórnarlömb árásarinnar hafa enn ekki verið nafngreind. Þó er talið að hinir látnu hafi verið keppendur á mótinu en meðlimir tölvuleikjasamfélagsins hafa margir minnst tveggja spilara á samfélagsmiðlum í kjölfar árásarinnar.

Mikil ringulreið skapaðist þegar Katz hóf skothríð á tölvuleikjamótinu í gær en því var streymt beint á netinu. Upphaf árásarinnar náðist á myndbandi sem var dreift víða á samfélagsmiðlum í gær.

Mannskæðar skotárásir hafa verið tíðar í Flórída síðustu ár. 49 létust í skotárás á skemmtistaðinn Pulse í Orlando árið 2016 og 17 létust í árásinni á Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólann í Parkland í febrúar síðastliðnum.


Tengdar fréttir

337 látist í 290 skotárásum í Bandaríkjunum það sem af er ári

Árásarmaðurinn sem framdi skotárás í Jacksonville í Flórída fyrr í kvöld framdi sjálfsmorð eftir að hann lét skotunum rigna yfir þáttakendur á tölvuleikjamóti. 337 einstaklingar hafa týnt lífi í skotárásum í Bandaríkjunum það sem af er ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×