Erlent

Verjendur kosningastjóra Trump kalla ekki til nein vitni

Kjartan Kjartansson skrifar
Verjendur Manafort við dómshúsið í Alexandríu í Virginíu.
Verjendur Manafort við dómshúsið í Alexandríu í Virginíu. Vísir/EPA
Lögmenn Pauls Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Donalds Trump Bandaríkjaforseta, luku máli sínu í dag án þess að kalla til nein vitni. Manafort er ákærður fyrir skattsvik og að hafa svikið út bankalán í málinu sem var höfðað gegn honum í Virginíuríki.

Saksóknarar luku máli sínu í gær eftir að hafa kvatt til fjölda vitna á meðan réttarhöldin hafa staðið yfir. Athygli vakti að verjendur Manafort kusu að kalla ekki til nein vitni. Manafort bar sjálfur ekki vitni.

Verjendurnir kröfðust þess hins vegar að málinu yrði vísað frá á þeim forsendum að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sýna fram á sekt hans. Slíkar kröfur eru tíðar í dómsmálum en dómarar fallast sjaldnast á þær, að sögn Washington Post.

Búist er við því að lokamálflutningsræður saksóknara og verjenda verði fluttar á morgun. Málið verður síðan lagt í kviðdóm, að sögn Politico.

Málið gegn Manafort er hluti af rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, á meintu samráði framboðs Trump við Rússa. Manafort var kosningastjóri Trump þangað til í ágúst árið 2016. Hann steig til hliðar eftir að gögn komu fram sem bentu til þess að hann hefði þegið milljónir dollara á laun frá fyrrverandi stjórnarflokki í Úkraínu sem var hallur undir stjórnvöld í Kreml.

Auk málsins í Virginíu er Manafort einnig ákærður fyrir peningaþvætti og að skrá sig ekki sem málafylgjumaður erlends ríkis í Washington-borg. Búist er við því að það mál verði tekið fyrir í september.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×